Með setningu laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, var Seðlabanka Íslands fengið skilavald (e. resolution authority). Í því felst heimild til að taka ákvarðanir um skilameðferð og beitingu skilaúrræða hjá fjármálafyrirtæki sem er á fallanda fæti, þ.e. að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða að verulegar líkur séu á að það geti ekki staðið við þær. Um æskilegustu skilameðferð lánastofnunar er fjallað í sérstakri skilaáætlun. Skilavald ákvarðar einnig lágmarkshlutfall eiginfjárgrunns og hæfra skuldbindinga (MREL-kröfur). Starfsemi skilavalds Seðlabanka Íslands skal skv. 4. gr. laganna vera aðgreind frá annarri starfsemi í skipulagi bankans. Skrifstofa skilavalds Seðlabanka Íslands tók formlega til starfa í nóvember 2020.
Allar ákvarðanir skilavalds verða teknar í ljósi markmiðs laga um skilameðferð (e. resolution objective). Umrætt markmið er undirstaðan við mat á því til hvaða úrræða verður gripið og hvaða skilastefna er heppilegust fyrir fjármálafyrirtæki hér á landi. Markmið laganna er skv. 1. gr. laganna: Að varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði.