Meginmál

Fjármálastöðugleiki 2025/1

Ritið Fjármálastöðugleiki 2025/1 hefur verið birt á vef Seðlabanka Íslands. Í Fjármálastöðugleika er tvisvar á ári birt yfirlit yfir stöðu fjármálakerfisins, þ.e. um styrk þess og hugsanlega veikleika og áhættu sem því kann að vera búin bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga. Í ritinu greinir Seðlabankinn frá því hvernig hann vinnur að verkefnum sem varða virkt og öruggt fjármálakerfi. Fjármálastöðugleiki er einnig gefinn út á ensku undir heitinu Financial Stability.

Til að viðhalda viðnámsþrótti bankanna hefur fjármálastöðugleikanefnd ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%

Vefútsending

Vefútsending vegna yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar og útgáfu Fjármálastöðugleika

Tengt efni

Í hnotskurn

Stríðsátök geisa áfram í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Víða í nágrannalöndum Íslands hefur pólitísk óvissa aukist og vaxandi spennu gætir í samskiptum þjóða. Mörg ríki Evrópu hafa aukið útgjöld til varnarmála á síðustu mánuðum og þar er búist við áframhaldandi hallarekstri hins opinbera. Aukin áhersla er á verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum, sem ýtir enn frekar undir brotamyndun í alþjóðastjórnmálum, truflar framboðskeðjur, eykur viðskiptakostnað, truflar verðmyndun á mörkuðum og hefur neikvæð áhrif á fjárfestingu og efnahagsumsvif. Til lengri tíma getur hægt á vexti framleiðslugetu heimsbúskapsins. Viðbúið er að áhrifin nái hingað til lands með beinum eða óbeinum hætti, meðal annars með minni efnahagsumsvifum og minni eftirspurn eftir ferðum til Íslands.

Verðbólga og hátt vaxtastig hafa reynt á viðnámsþrótt heimila og fyrirtækja á síðustu árum. Vanskil hafa hins vegar aðeins aukist lítillega og eru enn lítil. Skuldsetning einkageirans er lítil í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir mikla hækkun eignaverðs á síðustu árum hefur skuldavöxtur verið takmarkaður og sparnaðarstig hátt. Það birtist í sterkum efnahagsreikningum bæði heimila og fyrirtækja.

Umsvif á íbúðamarkaði hafa minnkað á síðustu mánuðum enda aðhald bæði þjóðhagsvarúðarstefnu og peningastefnu töluvert. Framboð íbúða hefur aukist og meðalsölutími lengst. Misvægi er enn til staðar á milli íbúðaverðs og þeirra þátta sem jafnan ráða verðmyndun á markaðnum. Íbúðaverð er hátt en lítið atvinnuleysi og aðflutningur fólks til landsins hafa ýtt undir eftirspurn. Staða byggingageirans er áfram sterk. Lokið hefur verið við byggingu fjölda íbúða undanfarin ár og ekki eru horfur á að verulega dragi úr framboði á nýbyggingum á næstu misserum.

Staða stóru viðskiptabankanna er góð. Eiginfjárhlutföll þeirra eru há, lausafjárstaðan sterk og arðsemi af reglulegum rekstri er í samræmi við markmið. Þrátt fyrir tiltölulega hátt vaxtastig eru eignagæði þeirra mikil og vanskil útlána til heimila og fyrirtækja takmörkuð. Þróun á erlendum lánsfjármörkuðum hefur verið þeim hagfelld og vaxtaálag á skuldabréf þeirra í erlendum gjaldmiðlum lækkaði nær stöðugt á síðasta ári. Grunnvaxtastig í Evrópu hefur þó hækkað upp á síðkastið, ekki síst vegna aukinna útgjalda til varnarmála sem bæta hagvaxtarhorfur og auka verðbólguþrýsting til skamms tíma. Sú þróun gæti haft í för með sér hærri ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum almennt. Aukin óvissa á alþjóðavettvangi eða áframhaldandi stríðsátök gætu leitt til meiri áhættufælni, sem gæti aukið kostnað við erlenda fjármögnun.

Rekstraráhætta fjármálainnviða hefur áfram aukist á síðustu misserum, meðal annars vegna vaxandi netógnar. Áætlanir um viðbrögð við rekstraráföllum, sem felast í samhæfðum viðbrögðum og stefna að samfelldum rekstri, gegna lykilhlutverki. Með þeim má efla viðnámsþrótt og takmarka áhrif áfalla á fjármálakerfið. Áfram er nauðsynlegt að vinna markvisst að því að treysta rekstraröryggi og viðnámsþrótt greiðslumiðlunar bæði hér á landi og við útlönd. Unnið er að því hér á landi að koma upp varaleiðum sem þurfa að vera til taks ef á þarf að halda.

Rammagreinar

Í ritinu Fjármálastöðugleiki 2025/1 má finna eftirfarandi sex rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.

RammagreinBls.

Innsýn í íbúðamarkað fyrir tilstilli verðmatslíkans

29

Útlán í eigu sérhæfðra sjóða 

34

Lífeyrissjóðir og fjármálastöðugleiki 

50

Staða kerfislega mikilvægu bankanna (KMB) í samanburði við sambærilega norræna banka

52

Slit ÍL-sjóðs 

56

Áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda á fjármálastöðugleika 

57