Fundargerð fyrir fund fjármálastöðugleikanefndar frá 22. og 23. september 2025 hefur verið birt.
Á fundi nefndarinnar fékk hún kynningu á stöðu og horfum í efnahagsmálum og fyrir fjármálastöðugleika. Nefndin ræddi helstu áhættuþætti fjármálastöðugleika á Íslandi og alþjóðlega þróun. Meðal annars var farið yfir þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðu á fasteignamarkaði og viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja, þ. á m. eiginfjár- og lausafjárstöðu þeirra. Þá ræddi nefndin sérstaklega nýjasta álagspróf Seðlabankans á kerfislega mikilvæga banka sem miðaði að þessu sinni við sambærilegar forsendur og álagspróf Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA). Nefndin ræddi sömuleiðis stefnumörkun Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þá fékk nefndin kynningu á skuldastöðu ríkissjóðs Íslands og alþjóðlegri þróun á skuldabréfamörkuðum. Nefndin fékk sömuleiðis kynningu á aðkomu fasteignafélaga og sjóða að íbúðakaupum einstaklinga og mögulegum áhrifum dómsmála um skilmála lána með breytilega vexti á viðskiptabankana. Nefndin ræddi uppfært mat á því hvaða lánastofnanir teljist kerfislega mikilvægar. Einnig fékk nefndin kynningu á þáttum er snúa að net- og rekstraröryggi á fjármálamarkaði.
Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5% af innlendum áhættugrunni. Það er við efri mörk þess bils sem nefndin hefur skilgreint sem hlutlaust gildi hans, þ.e. 2-2,5%. Óvissa í alþjóðamálum er áfram mikil og áhyggjur eru af sjálfbærni opinberra fjármála í mörgum iðnríkjum. Nefndin undirstrikaði því mikilvægi þess að gæta að viðnámsþrótti fjármálafyrirtækja og öflugs gjaldeyrisforða.