Seðlabankinn hefur ákveðið að lækka vexti um 0,25 prósentur, þeir eru því 7,25%
Vefútsending
Vefútsending vegna yfirlýsingar peningastefnunefndar og útgáfu Peningamála.
Tengt efni
Gögn fyrir myndir í PM 2025/4
Í hnotskurn
Alþjóðleg efnahagsumsvif hafa haldið betur velli en búist var við fyrr á árinu. Hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum mældist 1,8% á öðrum ársfjórðungi en áfram er talið að hann gefi eftir á seinni hluta ársins vegna áhrifa tollahækkana í Bandaríkjunum og þeirrar óvissu sem þær hafa skapað. Hagvaxtarhorfur lengra fram á veginn hafa hins vegar lítið breyst og áfram er talið að hagvöxtur verði um 1½% út spátímann. Verðbólga í viðskiptalöndum hefur heldur aukist á ný að undanförnu en horfur um alþjóðlega verðbólguþróun á næstu árum hafa lítið breyst.
Hagvöxtur hér á landi mældist 0,3% á fyrri hluta ársins og var töluvert minni en gert var ráð fyrir í ágústspá Peningamála. Hagstofa Íslands hefur einnig endurskoðað fyrri tölur um landsframleiðslu ársins 2024 sem gefa nú til kynna að 1% samdráttur hafi verið milli ára. Talið er að samdráttur hafi einnig verið á þriðja fjórðungi þessa árs og að hagvöxtur verði einungis 0,9% á árinu öllu en í ágúst var spáð að hann yrði 2,3%. Horfur fyrir næsta ár hafa einnig versnað en þar vega nýleg áföll í útflutningsatvinnugreinum þungt. Nú er spáð 1,6% vexti á árinu sem er 0,5 prósentum minni vöxtur en spáð var í ágúst. Horfur fyrir seinni hluta spátímans hafa hins vegar lítið breyst: talið er að hagvöxtur verði um 2½% að meðaltali sem er í ágætu samræmi við hagvaxtargetu þjóðarbúsins.
Spenna á vinnumarkaði hefur greinilega minnkað. Verulega hefur hægt á fjölgun íbúa og
starfa auk þess sem atvinnuleysi hefur þokast áfram upp. Búist er við að atvinnuleysi verði að meðaltali um 4½% á næsta ári en taki að minnka á seinni hluta ársins. Viðsnúningur virðist hafa orðið á umsvifum í þjóðarbúinu. Nú er talið að lítillega minni spenna hafi verið í þjóðarbúinu í fyrra en áður var gert ráð fyrir og að slaki sé að myndast á seinni hluta þessa árs sem verði viðvarandi út meginhluta spátímans.
Verðbólga mældist 4,3% í október og hefur aukist um 0,3 prósentur frá því í júlí sl. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig þokast upp. Verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði og hafa lítið breyst undanfarið. Þótt nýleg aukning verðbólgu hafi verið fyrirséð reyndist verðbólga heldur minni á þriðja ársfjórðungi en spáð var í ágúst. Hagstæðari upphafsstaða gerir það að verkum að verðbólguhorfur á næstunni hafa batnað. Við bætast áhrif þess að slaki í þjóðarbúskapnum sé talinn meiri en áður var áætlað en á móti vegur lægra gengi. Verðbólga minnkar því hraðar en áður var spáð og búist er við að hún verði komin í 3½% um mitt næsta ár og í markmið snemma árs 2027.
Þótt óvissa varðandi tollastefnu stjórnvalda í Bandaríkjunum hafi minnkað er hún enn mikil og óvíst er hver áhrifin verða á alþjóðaviðskipti. Þá hefur hægt meira á umsvifum í þjóðarbúinu undanfarið en búist var við en verðbólga haldist þrálát. Óvissa er því um hversu hratt verðbólga hjaðnar í markmið. Ef áhrif veikrar kjölfestu verðbólguvæntinga og undangenginna kostnaðarhækkana eru vanmetin gæti verðbólga minnkað hægar en spáð er. Hún gæti hins vegar orðið minni ef áhrif nýlegra áfalla í útflutningsgreinum auk vendinga á lánamarkaði leiða til þess að slaki verði meiri í þjóðarbúinu en töluverð óvissa er um áhrif breytinga á lánaframboði á fjármálaleg skilyrði heimila.
Rammagreinar
Í ritinu Peningamál 2025/4 má finna eftirfarandi fimm rammagreinar auk þess sem hægt er að skoða yfirlit yfir áður útgefnar rammagreinar.
| Rammagrein | Bls. |
|---|---|
Fráviksdæmi og óvissuþættir | 53 |
Eru áhrif gengisbreytinga á verðlag samhverf? | 60 |
Eru innlend fyrirtæki að hamstra vinnuafl? | 66 |
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 | 72 |
Spár Seðlabankans um efnahagsþróun ársins 2024 | 77 |