Fara beint í Meginmál

Yfirlýsing peningastefnunefndar 19. nóvember 2025 19. nóvember 2025

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 7,25%. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun.

Verðbólga var 4,3% í október og jókst um 0,2 prósentur frá mánuðinum á undan. Hún hefur haldist í um 4% í tæpt ár. Undirliggjandi verðbólga sýnir áþekka þróun.

Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og vísbendingar um viðsnúning í efnahagsumsvifum verða æ greinilegri. Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans virðist spennan í þjóðarbúinu horfin og útlit er fyrir að það hægi meira á hagvexti en áður var talið. Þar vegur þungt röð áfalla sem hafa skollið á útflutningsgreinum en ekki síður það umrót sem hefur skapast á innlendum lánamarkaði í kjölfar nýlegs dóms Hæstaréttar. Samkvæmt spá bankans hjaðnar verðbólga því hraðar en áður hafði verið gert ráð fyrir. Launahækkanir eru þó enn töluverðar og verðbólguvæntingar mælast enn yfir markmiði. Óvissa er því áfram mikil.

Það umrót sem hefur orðið á innlendum lánamarkaði er líklegt til þess að þrengja að lánakjörum og  fjármálalegum skilyrðum heimila þótt raunvextir Seðlabankans hafi lítið breyst. Í því ljósi telur nefndin rétt að lækka vexti bankans til að vega á móti þeirri herðingu á taumhaldi sem umrótinu fylgir.

Frekari ákvarðanir um lækkun vaxta bankans eru hins vegar háðar því að skýrar vísbendingar komi fram um að verðbólga sé að hjaðna í 2½% markmið bankans.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Frétt nr. 18/2025
19. nóvember 2025

Vextir verða því sem hér segir:

  1. Daglán: 9,00%
  2. Lán gegn veði til 7 daga: 8,00%
  3. Innlán bundin í 7 daga: 7,25%
  4. Viðskiptareikningar: 7,00%

Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands.

Tengdar greinar

19. nóvember 2025
Peningamál 2025/4