Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 31. október 2025 31. október 2025
Nokkur óvissa hefur skapast á íbúðalánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 frá 14. október sl. Lánveitendur meta nú áhrif dómsins og væntanlegra dóma í sambærilegum málum. Nú þegar hefur verið gert hlé á ákveðnum lánveitingum til íbúðakaupa vegna óvissu um skilmála lána. Því hefur dregið úr framboði lána, a.m.k. um tíma, sér í lagi lána með tiltölulega lægri greiðslubyrði. Lánamöguleikar sem hafa verið kynntir í stað þeirra fyrri eiga það sammerkt að bera lakari kjör og þrengri skilmála. Staða kaupenda fyrstu fasteignar og þeirra sem lægri tekjur hafa virðist sérstaklega hafa versnað.
Í ljósi þessa og til að styðja við virkni íbúðalánamarkaðarins hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákveðið að gera breytingar á lánþegaskilyrðum. Í reglum Seðlabankans um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda er kveðið á um sérstaka undanþáguheimild til að veita lán umfram hámarkshlutfall. Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að undanþáguheimild lánveitenda á hverjum ársfjórðungi skuli hækkuð úr 5% í 10% af heildarfjárhæð veittra fasteignalána. Þá skuli horft til undangengins ársfjórðungs við útreikning hlutfallsins. Þessari breytingu er ætlað að gefa lánveitendum aukið svigrúm til að veita lán á meðan núverandi óvissa ríkir og mæta þörfum lántakenda með viðeigandi hætti.
Nefndin hefur enn fremur ákveðið að breyta reglum Seðlabankans um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og hækka hámarkið við kaup á fyrstu fasteign úr 85% í 90%. Þetta er gert vegna framangreindrar óvissu og í ljósi þess að nokkur aðlögun hefur átt sér stað á fasteignamarkaði frá því að reglurnar voru hertar í júní 2022. Hámark veðsetningarhlutfalls fyrir aðra lántaka helst óbreytt í 80%.
Nefndin telur að breytingarnar séu til þess fallnar að auka svigrúm lánveitenda til að bregðast við ríkjandi óvissu, sérstaklega hvað varðar kaupendur fyrstu fasteignar og tekjulægri kaupendur. Lánastofnanir eru hvattar til að nýta þetta svigrúm til að tryggja eðlilegt flæði lánsfjár á meðan óvissan er fyrir hendi. Breytingarnar eiga að treysta fjármálastöðugleika um leið og þeim er ætlað að draga úr hnökrum á íbúðalánamarkaði.
Nefndin mun sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.
Frétt nr. 15/2025
31. október 2025