Meginmál

Gagnasöfnun Seðlabankans vegna vinnslu hagtalna er á grundvelli 32. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands en þær leggja grunn að mati bankans á mikilvægum þáttum peningamála og fjármálastöðuleika. Í samræmi við 41. gr. laganna hefur Hagstofa Íslands einnig aðgang að hluta þeirra gagna sem Seðlabankinn safnar skv. samstarfssamningi sem stofnanirnar hafa gert með sér.

Staðlar

Við vinnslu hagtalna Seðlabankans er fylgt alþjóðlegum stöðlum um hagskýrslugerð frá erlendum stofnunum, s.s. Alþjóðabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðagreiðslubankanum, Efnahags- og framfarastofnuninni, Evrópubankanum, Hagstofu Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðunum. Tilgangur staðlanna er að tryggja alþjóðlegan samanburð bæði hvað varðar gæði og samanburðarhæfni. Alþjóðlegir staðlar skilgreina aðferðafræði, hugtök og framsetningu hagtalnanna og vísa veginn hvað varðar fagleg vinnubrögð, hlutleysi og trúnað við vinnslu þeirra.
Þjóðhagsreikningastaðall útgefinn af ofangreindum alþjóðastofnunum árið 2009, System of National Accounts 2008 (SNA 2008) er sá staðall sem hinir staðlarnir taka mið af. Neðangreind mynd sýnir samhengi milli staðlanna. Alþjóðastofnanir leggja áherslu á að samræma hugtakanotkun og flokkunarkerfi alþjóðlegra staðla til að auka samanburðarhæfni hagtalna. Þeir tengjast því allir og eru að mestu í samræmi við SNA 2008 staðalinn.

Við hagtölugerð Seðlabankans eru einkum staðlar um þjóðhagsreikninga, greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu og staðlar um hagtölur peninga- og fjármála hafðir til grundvallar. Við vinnslu á greiðslujöfnuði við útlönd er einnig stuðst við staðla sem fjalla ítarlega um sérstök viðfangsefni, s.s. beina erlenda fjárfestingu, verðbréf eða gjaldeyrisforða. 
Samkvæmt þjóðhagsreikningastöðlum er hagkerfinu skipt upp í fimm geira auk útlanda líkt og neðangreind tafla sýnir. Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, svokallaðar stofnanaeiningar, eru síðan flokkuð saman í geira innan hagkerfisins á grundvelli starfsemi þeirra.

FlokkurGeiri

S11

Atvinnufyrirtæki: Stofnanaeiningar sem framleiða vörur og þjónustu til sölu á markaði.

S12

Fjármálageiri: Stofnanaeiningar sem veita fjármálaþjónustu og hafa milligöngu á fjármálamarkaði. Skiptist í 9 undirgeira.

S13

Hið opinbera: Ríki og sveitarfélög

S14

Heimili: Einstaklingar einn eða fleiri, sem deila húsnæði og sameinast um útgjöld vegna fæðis og húsnæðis.

S15

Félagasamtök sem þjóna heimilum: Stofnanaeiningar sem framleiða vörur eða þjónustu fyrir heimili frítt eða á lágu verði.

S2

Erlendir aðilar: Stofnanaeiningar sem hafa heimilisfesti utan Íslands.

Til að teljast stofnanaeining þarf viðkomandi efnahagsleg eining að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Geta átt eignir í eigin nafni
  • Geta stofnað til skulda í eigin nafni
  • Geta tekið viðskiptalegar ákvarðanir og átt í viðskiptum
  • Gera eigin efnahagsreikning (hafi efnahagslega þýðingu að búa hann til)

Til eru tvær tegundir af stofnanaeiningum;

  • Heimili
  • Lagaleg eða félagsleg eining

Staðlar fyrir greiðslujöfnuð við útlönd

Seðlabanki Íslands birtir hagtölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins samkvæmt staðli sem gefinn er út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Staðallinn ber heitið Balance of Payments and International Investment Position Manual, 6th ed. og tók Seðlabankinn upp staðalinn í september 2014. Nýi staðallinn kom í stað fimmtu útgáfunnar sem var innleidd hér á landi árið 1996.

Tilgangur staðalsins er meðal annars að endurspegla utanríkisviðskipti og erlenda stöðu þjóðarbúsins sem best. Hægt er að lesa um áhrif innleiðingarinnar í 5. útgáfu af Upplýsingariti Seðlabanka Íslands. Aðferðafræði greiðslujafnaðar er útskýrð nánar í hugtökum greiðslujafnaðar.

Staðlar fyrir beina erlenda fjárfestingu

Hagtölur um beina erlenda fjárfestingu mæla viðskipti þjóðarbúsins við erlenda aðila sem eru í eignatengslum við íslenska aðila. Hagtölurnar byggja á staðli Efnahags- og framfarastofnuninnar (OECD). Með staðlinum er framsetning, aðferðafræði, verðmat og hugtök skilgreind.

Staðlar fyrir hagtölur peninga- og fjármála

Hagtölur fjármálafyrirtækja taka til þeirra stofnanaeininga sem starfa á innlendum fjármálamarkaði. Hagtölurnar byggja á staðli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um hagtölur peninga- og fjármála . Nýjasta útgáfa staðalsins Monetary and Financial Statistics Manual and Compilation Guide (MFSMCG) tekur mið af nýjum þjóðhagsreikningastaðli, SNA2008 (e. System of National Accounts) sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, Alþjóðabankinn, Sameinuðu þjóðirnar og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gáfu út árið 2009.

Hagtölur fjármálafyrirtækja sýna stærð og samsetningu fjármálageirans út frá efnahagsreikningum þeirra fyrirtækja sem þar starfa. Fjármálageirinn samanstendur af níu undirgeirum líkt og neðangreind tafla sýnir:

FlokkurGeiri

S12

Fjármálageiri

S121

Seðlabanki

S122

Innlánsstofnanir

S123

Peningamarkaðssjóðir

S124

Aðrir verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir

S125

Önnur fjármálafyrirtæki

S126

Fjármálaleg hliðarstarfsemi

S127

Innbyrðis fjármálastarfsemi

S128

Vátryggingarfélög

S129

Lífeyrissjóðir

Gögn eru birt fyrir alla undirgeira fjármálageirans að undanskildum geirum S. 126 og S.127 en unnið er að því að birta gögn um þá geira. Ítarleg lýsigögn um hvern undirgeira eru aðgengileg notendum á undirsíðum viðkomandi hagtalna.

Virðismat eigna og skulda

Eignir og skuldir eru metnar á markaðsvirði/gangvirði eða nafnverði með áföllnum vöxtum og verðbótum.

  • Markaðsvirði: Verðmat verðbréfa eins og það hefur myndast á opinberum verðbréfamarkaði.
  • Gangvirði: Áætlað markaðsvirði verðbréfa sem ekki eru skráð á opinberum markaði. Við mat á hlutabréfum er t.d. stuðst við sjóðstreymisgreiningar og samanburðargreiningar. Við mat á öðrum fjármálagerningum er t.d. stuðst við samanburðargreiningar og verð í síðustu viðskiptum.
  • Nafnvirði: Upprunalegt nafnverð án þess að tillit sé tekið til virðisrýrnunar. Til nafnvirðis teljast áfallnir vextir og verðbætur.
  • Fjármálagerningar í erlendum gjaldmiðlum eru reiknaðir í íslenskar krónur miðað við gengi viðkomandi gjaldmiðils síðasta dag reikningsskilamánaðar.
  • Bókfært viðri er virði eignar/skuldar eins og það er skráð í bókhaldi viðkomandi stofnanaeiningar. Upphaflegt bókfært virði er kostnaðarverð eignarinnar/skuldarinnar en það kann að breytast yfir tíma þegar þættir eins og virðisrýrnun, afborganir, afskriftir, endurmat og hagnaður/tap  hafa áhrif á virðismatið.
FlokkurVirðismat

Seðlar og mynt

Nafnvirði

Innstæður

Nafnvirði (með áföllnum vöxtum og verðbótum)

Markaðsskuldabréf

Markaðs- eða gangvirði

Lán

Nafnvirði (með áföllnum vöxtum og verðbótum)

Hlutabréf og hlutdeildarskírteini

Markaðs- eða gangvirði (eignir); bókfært virði (skuldir)

Tryggingar og lífeyrir

Markaðs- eða gangvirði, nema fyrirframgreiðslur tryggingaiðgjalda sem eru á nafnvirði

Afleiður og kaupréttir

Markaðs- eða gangvirði

Aðrar eignir / Aðrar skuldir

Nafnvirði með áföllnum vöxtum

Gæðamál

Gæði hagtalna mótast af þeim gögnum sem unnt er að safna um viðfangsefnið og aðferðum við vinnslu þeirra. Lykilatriði er að lagaumhverfi styðji við þær stofnanir sem vinna að hagtölugerð og tryggi þeim faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði og nægjanlegar lagaheimildir til gagnasöfnunar. Seðlabankinn leggur áherslu á að fylgt sé traustri og viðurkenndri aðferðafræði við gagnasöfnun og vinnslu hagtalna. Lögð er áhersla á að hagtölur séu áreiðanlegar, óhlutdrægar og hlutlægar, vinnsla þeirra fylgi ákveðnum verkferlum og gæði gagna sannreynd eftir föngum. Þá er lögð áhersla á að birting hagtalna sé notendavæn og skýr, aðgengi að þeim gott og lýsigögn aðgengileg fyrir allar hagtölur.

Gæðaúttektir eru gerðar á hagtölum af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Hagstofu Evrópusambandsins.

Hér má nálgast úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hagskýrslugerð og birtingu tölfræðilegra gagna á Íslandi (2005).