Seðlabankinn framkvæmir peningastefnuna einkum með því að hafa áhrif á vexti á peningamarkaði, fyrst og fremst í gegnum ákvörðun vaxta í viðskiptum sínum við lánastofnanir, sem síðan hafa áhrif á aðra markaðsvexti. Meginvextir (stundum kallaðir stýrivextir) Seðlabankans eru þeir vextir í þessum viðskiptum við lánastofnanir sem ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Þessir vextir eru nú vextir á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum.
Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvaða vextir Seðlabankans hafa mest áhrif á aðra skammtímavexti og teljast þar með meginvextir hans. Fyrir fjármálakreppuna haustið 2008 voru meginvextir bankans vextir á lánum Seðlabankans gegn veði til lánastofnana, þ.e. svokölluð veðlán. Eftir fjármálakreppuna hefur eftirspurn lánastofnana eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum hins vegar verið takmörkuð og lánastofnanir lagt þeim mun meira inn á reikninga í bankanum. Því hafa vextir á innlánsformum bankans verið áhrifameiri um vaxtaþróun á peningamarkaði frá árinu 2009.
Hér fyrir neðan eru gögn um vexti Seðlabankans og með því að smella á „Skoða gögn“ má nálgast upplýsingar um fleiri vaxtaraðir.
Vextir miðast við nafnvexti sbr. vaxtatilkynningu 20. nóvember 2024.
Peningastefnunefnd ákvað að samræma birtingu vaxta þannig að allir vextir verði framvegis birtir sem nafnvextir. Breytingin tók gildi 20. nóvember 2024 og hefur eingöngu áhrif á vexti á viðskiptareikningum í Seðlabankanum.
Tímabil: | Meginvextir |
---|---|
Til og með 7. apríl 2009 | Vextir á lánum gegn veði |
8. apríl 2009 til 29. september 2009 | Vextir á viðskiptareikningum |
30. september 2009 til 20. maí 2014 | Einfalt meðaltal vaxta á viðskiptareikningum og hámarksvaxta á innstæðubréfum með 28 daga binditíma |
Frá 21. maí 2014 | Vextir á 7 daga bundnum innlánum |
Vextir á millibankamarkaði með krónur (%)
Vextir á millibankamarkaði með íslenskar krónur. Frá og með 1. júlí 2020 hætti Seðlabankinn skráningu á 9 og 12 mánaða vöxtum á millibankamarkaði með krónur (REIBOR-markaður).
Seðlabankinn hættir skráningu 9 og 12 mánaða REIBOR-vaxta
Seðlabankinn hætti skráningu 9 og 12 mánaða vaxta á millibankamarkaði með krónur (REIBOR) 1. júlí 2020. Frétt þess efnis má sjá hér á vefsíðu Seðlabanka Íslands.
Upplýsingar um vexti erlendis
Þar sem nokkuð hefur verið um fyrirspurnir til Seðlabanka Íslands um vexti erlendis og þá einkum um LIBOR-vexti, má sjá upplýsingar á heimasíðu International Exchange Benchmark Administration. Seðlabanki Íslands ber hins vegar enga ábyrgð á upplýsingum sem er að finna á slíkum vefsíðum eða notkun aðila á þeim auk þess sem minnt er á almennan fyrirvara um áreiðanleika upplýsinga á vefnum.
Seðlabanki Íslands birtir mánaðarlega tilkynningu um dráttarvexti og vexti af peningakröfum samkvæmt lögum nr. 38/2001. Að auki birtir Seðlabankinn mánaðarlegt yfirlit yfir helstu vexti eins og þeir voru í lok hvers mánaðar.
Hér að ofan má m.a. finna vexti til viðmiðunar vegna umreiknings á lánum skv. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum í lögum nr. 151/2010.
Mánaðarlegar vaxtatilkynningar (tilkynningar um dráttarvexti og vexti af peningakröfum) má finna á síðunni Fréttir og tilkynningar.
Frá 01.04.25 | 15,50% |
Lýsigögn
Umsjón
Gagnamál | adstod@sedlabanki.is
Vaxtaviðmið í íslenskum krónum (IKON)
Seðlabankinn reiknar út og hefur birt IKON vaxtaviðmið (Icelandic Króna OverNight), sem eru vextir á ótryggðum innlánum hjá upplýsingaskyldum aðilum í viðskiptum í íslenskum krónum til einnar nætur (O/N), daglega frá 1. apríl 2022. Vextirnir eru reiknaðir út frá samningum sem fjármálafyrirtækin gera við viðskiptavini sína þegar tekið er við innstæðum á föstum kjörum í fastar tímalengdir. IKON vextir eru ólíkir REIBOR-vöxtum að því leyti að þeir byggja á raunverulegum viðskiptum en ekki á tilboðum líkt og REIBOR-vextirnir.
Nánari upplýsingar um vextina er að finna á svæði markaðsviðskipta.
1.4.2025 | 7,466% |
Leiðrétting
Leiðrétting 17. nóvember 2023
Í nóvember voru birtar leiðréttar upplýsingar um IKON vexti og veltu á 15 dagsetningum frá ársbyrjun 2022. Ástæða leiðréttingarinnar var hugbúnaðavilla sem reiknaði vægi einstakra viðskipta rangt í 15 skipti. Upplýsingar um vextina ásamt veltu hafa verið leiðréttar, en umrædd hugbúnaðarvilla hafði í för með sér að vaxtagildin í umrædd 15 skipti reiknuðust ögn lægri en ella, um 0,002 til 0,037 prósentur. Dagsetningarnar sem um ræðir eru merktar sérstaklega í gögnum.
Umsjón
Markaðsviðskipti| framlina@sedlabanki.is