Kostnaður vegna afgreiðslu umsókna um starfsleyfi
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, skal greiða fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila og eru það eftirfarandi:
Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og vátryggingafélög | 3.200.000 kr. |
Verðbréfafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða, rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, kauphallir, verðbréfamiðstöðvar, greiðslustofnanir og rafeyrisfyrirtæki | 1.280.000 kr. |
Aðrir eftirlitsskyldir aðilar | 330.000 kr. |
Seðlabanki Íslands sendir út greiðsluseðil vegna ofannefndra gjalda við móttöku umsókna. Fyrir afgreiðslu umsóknar um aukið starfsleyfi (viðbótarstarfsleyfi) eða breytingu á tegund starfsleyfis skal greiða tímagjald, sbr. gjaldskrá Seðlabanka Íslands vegna verkefna sem tengjast fjármálaeftirliti.
Kostnaður vegna afgreiðslu umsókna um skráningu
Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, skal greiða fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um skráningu eftirlitsskyldra aðila að fjárhæð 330.000. kr.
Kostnaður vegna útgáfu leyfisbréfa
Fyrir útgáfu leyfisbréfs ber auk þess að greiða til ríkissjóðs, tiltekið gjald sem tilgreint er í 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:
Leyfisbréf fyrir viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, greiðslustofnanir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, miðlæga mótaðila og verðbréfamiðstöðvar: | 230.000 kr. |
Leyfisbréf fyrir vátryggingafélög og kauphallir og aðra skipulega markaði | 197.000 kr. |
Leyfisbréf fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, vátryggingamiðlara og innheimtuaðila | 115.000 kr. |
Leyfisbréf fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu | 107.000 kr. |
Gjald samkvæmt ofangreindu skal greitt fyrir útgáfu leyfis og ber að senda staðfestingu þess efnis til Seðlabankans.
Eftirlitsgjald
Í 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar skuli greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem þar segir. Álagningarstofnar eftirlitsgjalds eru efnahags- og rekstrarliðir samkvæmt ársreikningi viðkomandi aðila fyrir næstliðið ár, þó ekki þeirra er greiða skulu fast gjald. Um framkvæmd álagningar og innheimtu fer samkvæmt 6. gr. sömu laga.