Meginmál

Til að mega stunda fjármálastarfsemi er sett það skilyrði að fyrirtæki hafi verið veitt starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki, þ.e. lánastofnun (viðskiptabanki, sparisjóður og lánafyrirtæki) og verðbréfafyrirtæki.

Um starfsleyfi fjármálafyrirtækja gildir II. kafli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og I. kafla 2. þáttar laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga. Sjá nánari umfjöllun um starfsleyfi verðbréfafyrirtækja.

Seðlabanki Íslands veitir fyrirtækjum starfsleyfi sem lánastofnun samkvæmt 2. gr. laga um fjármálafyrirtæki Í 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki er kveðið á um hvaða starfsemi telst leyfisskyld samkvæmt lögunum. Kveðið er á um kröfur til stofnunar og starfsemi lánastofnana í III. kafla laganna, og IV. kafli laganna tiltekur starfsheimildir þeirra. Þar segir enn fremur að lánastofnunum sé einnig heimilt að stunda fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.

Seðlabankinn vekur athygli á því að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 110. gr. laga um fjármálafyrirtæki getur það lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis. Slíkt getur einnig varðað sektum eða fangelsi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. b sömu laga.

Starfsemi án leyfis eða skráningar

Umsókn og afgreiðsla starfsleyfis lánastofnana

Í 5. gr. laga um fjármálafyrirtæki er kveðið á um að umsókn um starfsleyfi skuli vera skrifleg og að henni skuli fylgja tilteknar upplýsingar en ekki er um tæmandi talningu að ræða. Seðlabankinn hefur útbúið yfirlit yfir þær upplýsingar sem bankinn fer fram á að fylgi umsókn auk viðeigandi fylgigagna. Seðlabankinn leggur áherslu á að umsóknin sé skipulögð þannig að hún vísi til viðeigandi töluliða í umræddu yfirliti.

Að öðru leyti vísast til reglna nr. 771/2023, um upplýsingagjöf vegna umsóknar um starfsleyfi sem lánastofnun, og til hliðsjónar viðmiðunarreglna EBA/GL/2021/12 um veitingu starfsleyfis sem lánastofnun.

Nýtt starfsleyfi

Upplýsingagjöf vegna umsóknar um nýtt starfsleyfi lánastofnunar eða um aukið starfsleyfi má finna á Þjónustuvef bankans.

Samkvæmt 6. gr. laga um fjármálafyrirtæki skal ákvörðun Seðlabankans um veitingu starfsleyfis tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Seðlabankinn skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi. Gera má ráð fyrir því að afgreiðsla umsóknar um starfsleyfi geti tekið allt að 12 mánuði.

Synjun starfsleyfis

Kveðið er á um í 7. gr. laga um fjármálafyrirtæki að fullnægi umsókn ekki skilyrðum laganna að mati Seðlabankans skuli hann synja um starfsleyfi. Synjun skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda tólf mánuðum frá móttöku umsóknar. Í þessu sambandi má nefna að Seðlabankinn þarf að hafa svigrúm til þess að meta þær upplýsingar sem fylgja umsókn og því skulu fullnægjandi upplýsingar hafa borist eigi síðar en 9 mánuðum frá því upphafleg umsókn barst bankanum. Að öðrum kosti tekur Seðlabankinn umsóknina til skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Kostnaður vegna starfsleyfis lánastofnana

Greiða skal fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila.

Kostnaður vegna starfsleyfis eftirlitsskyldra aðila

Hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra lánastofnana

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi lánastofnunar metur Seðlabankinn hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra á grundvelli 52. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. reglur nr. 150/2017.

Nánari upplýsingar um verklag við hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra má finna í vefritinu Fjármál.

Virkur eignarhlutur

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi fyrir lánastofnun getur Seðlabankinn þurft að leggja mat á hvort hluthafar hennar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki.

Virkur eignarhlutur