Einungis félög með tilskilin starfsleyfi hafa heimild til að stunda vátryggingastarfsemi hér á landi, sbr. lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi. Seðlabanki Íslands veitir fyrirtækjum starfsleyfi.
Kveðið er á um kröfur til stofnunar vátryggingafélaga í V. kafla laganna og í VI. kafla laganna er fjallað um starfsleyfi vátryggingafélaga. Þá er í II. kafla laganna fjallað um mörk við aðra starfsemi.
Seðlabankinn vekur athygli á því að skv. 1. tölul. 1. mgr. 165. gr. laga um vátryggingastarfsemi getur hann lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laganna um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis. Slíkt getur einnig varðað sektum eða fangelsi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 169. gr. sömu laga.
Umsókn og afgreiðsla starfsleyfis vátryggingafélaga
Ef fyrirhugað er að sækja um starfsleyfi sem vátryggingafélag er viðkomanda bent á að hafa samband við Seðlabankann áður en umsókn er skilað.
Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg og henni fylgja tilteknar upplýsingar, sjá nánar í 1. mgr. 18. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. skal ákvörðun Seðlabankans um veitingu starfsleyfis tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en sex mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Seðlabankinn skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
Synjun starfsleyfis
Kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga um vátryggingastarfsemi að fullnægi umsókn ekki skilyrðum laganna að mati Seðlabankans skuli hann synja umsókn um starfsleyfi. Þá kemur fram í 3. mgr. sömu greinar að synjun skuli rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan sex mánaða frá móttöku fullnægjandi umsóknar.
Kostnaður vegna starfsleyfis vátryggingafélaga
Greiða skal fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila.
Hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra vátryggingafélaga
Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi vátryggingafélags metur Seðlabankinn hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra á grundvelli 41. gr. laga um vátryggingastarfsemi, sbr. reglur nr. 285/2018. Stjórnarmenn vátryggingafélaga koma sumir hverjir í viðtal í tengslum við mat á hæfi og framkvæmdastjórar vátryggingafélaga eru ávallt teknir í viðtal.
Forstjóri, stjórnarmenn og þeir sem bera ábyrgð á lykilstarfssviðum þurfa á hverjum tíma að uppfylla hæfisskilyrði 41. gr. laganna, sbr. 40. og 42. gr. og reglna settra samkvæmt 5. mgr. 41. gr. laganna, og getur Seðlabankinn á hverjum tíma tekið hæfi þeirra til sérstakrar skoðunar.
Virkur eignarhlutur
Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi vátryggingafélags getur Seðlabankinn þurft að leggja mat á hvort hluthafar hennar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt X. kafla laga um vátryggingastarfsemi.