Eitt af hlutverkum Seðlabanka Íslands er að fylgjast með verðbreytingum og veltu á innlendum fjármálamörkuðum. Bankinn grípur inn í millibankamarkað með gjaldeyri og kaupir eða selur krónur fyrir evrur þegar ástæða er talin til. Seðlabankinn skráir daglega opinbert viðmiðunargengi íslensku krónunnar, vexti á millibankamarkaði með krónur (REIBOR) og vaxtaviðmið í íslenskum krónum (IKON). Þegar bankinn ákveður vexti í viðskiptum við fjármálafyrirtæki hefur hann áhrif á vexti á millibankamarkaði með krónur.
Seðlabankinn er kauphallaraðili að Nasdaq Iceland og fylgist með verðbreytingum og veltu á verðbréfamarkaði. Bankinn getur átt viðskipti á eftirmarkaði með innlend ríkisskuldabréf, telji hann það þjóna markmiðum sínum.
Seðlabanki Íslands birtir ýmsar tölulegar upplýsingar um viðskipti sín, m.a. um bundin innlán, bindiskyldu, lán gegn veði og skuldabréfakaup.
Megintilgangur markaðsaðgerða Seðlabankans er að stuðla að miðlun peningastefnunnar og þar með að stöðugu verðlagi, og varðveita fjármálastöðugleika. Hér má m.a. finna reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann, upplýsingar um stjórntæki og fleira.
Til að sinna verkefnum sínum getur Seðlabankinn ýmist þurft að beita sér á tilteknum fjármálamörkuðum eða að hafa visst eftirlit með þeim. Hér eru upplýsingar um millibankamarkað með gjaldeyri, millibankamarkað með krónur (REIBOR) og vaxtaviðmið í íslenskum krónum (IKON).
Ákveðnar reglur gilda um verðbréf sem gilda sem hæfar tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann, reglur nr. 1200/2019, með seinni breytingum. Mótaðilar Seðlabankans í viðskiptum og þátttakendur í millibankagreiðslukerfi Seðlabankans geta lagt fram slík veðhæf bréf sem tryggingar, annars vegar vegna heimilda í greiðslukerfum og hins vegar sem tryggingu fyrir veðlánum, þegar þau eru í boði.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans eru m.a. innstæður í erlendum bönkum og erlend skuldabréfaeign. Hlutverk forðans er meðal annars að draga úr áhrifum sveiflna í greiðslum á milli Íslands og útlanda, t.d. með inngripum á gjaldeyrismarkaði, með hliðsjón af stefnu bankans í peninga- og gengismálum og að draga úr líkum á að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika. Þá er forðinn einnig sérstakur öryggissjóður.
Seðlabankinn sér um verkefni varðandi lánamál ríkisins samkvæmt sérstökum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þannig sinnir Seðlabankinn ýmsum verkefnum varðandi lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innanlands og utan, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóðs, svo og endurlán lánsfjár, ríkisábyrgðir og Ríkisábyrgðasjóð.