Meginmál

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund) hefur það að markmiði að efla alþjóðlega samvinnu í gjaldeyrismálum, stuðla að stöðugu gengi gjaldmiðla og greiða fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Seðlabanki Íslands er fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir hönd íslenska ríkisins.

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru í Washington D.C. í Bandaríkjunum og fer dagleg yfirstjórn fram þar. Ísland á samstarf við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin á vettvangi sjóðsins. Þessi lönd mynda eitt af 24 kjördæmum sjóðsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er mikilvægur samstarfsvettvangur nær allrar þjóðríkja á sviði efnahags og peningamála. Skipta má starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þrjá meginþætti; eftirlit með alþjóðahagkerfinu og efnahagslífi einstakra aðildarríkja ásamt ráðgjöf, fjárhagsleg aðstoð og tæknileg aðstoð við aðildarríkin. Auk þessa hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á sérstaka aðstoð við fátækustu aðildarríkin bæði fjárhagslega og tæknilega.

Á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna ýmsar upplýsingar um samstarf Íslands og sjóðsins.

Hlutverk og starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
„Flaggskip“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – staða og horfur í efnahagsmálum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum

Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 óskuðu íslensk stjórnvöld formlega eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samkomulag var gert á grundvelli efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda sem hafði í meginatriðum þríþætt markmið. Í fyrsta lagi að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, í öðru lagi að móta stefnu í ríkisfjármálum með það meginmarkmið að koma á sjálfbærri skuldastöðu og í þriðja lagi að endurreisa fjármálageirann og viðurkenndar leikreglur. Áætlunin var gerð til tveggja ára.

Viljayfirlýsing stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samstarf var undirrituð 3. nóvember og var lánafyrirgreiðsla samþykkt 19. nóvember 2008 í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkvæmt áætluninni skyldi Ísland fá sem næmi 2,1 milljarði Bandaríkjadala (1,4 ma. SDR) að láni frá sjóðnum í áföngum. Auk þess fengust viðbótarlán sem námu allt að 2,3 milljörðum Bandaríkjadala frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð (1,775 ma. EUR) og Póllandi (204 m. PLN). Loks lánuðu Færeyingar Íslendingum fjárhæð sem nam um 50 milljónum Bandaríkjadala (300 m. DKK). Lánið frá sjóðnum átti að greiðast til baka á árunum 2012 til 2016 en var endurgreitt að fullu í október 2015. Lánin frá Norðurlöndunum voru á gjalddaga 2019-2021, Færeyjum 2013-2015 og Póllandi 2015-2022 en þau voru fyrirframgreidd á árunum 2012-2015.

Upplýsingar um lánafyrirgreiðslu Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum:

Ísland hefur fimm sinnum hlotið fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrsta lánið var veitt 1960 í tengslum við efnahagsumbætur stjórnvalda, svokallaða viðreisn. Eftir það fékk Ísland þrisvar sinnum lán hjá sjóðnum vegna greiðsluhallaerfiðleika. Árin 1967-1968 fékk Ísland lán vegna skyndilegrar og stórfelldrar minnkunar útflutningstekna, árin 1974-1976 úr sérstökum olíusjóði (e. Oil Facility) vegna hækkunar á olíuverði og aftur 1982 úr sérstakri lánadeild vegna samdráttar í útflutningstekjum. Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 óskuðu íslensk stjórnvöld formlega eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samkomulag var gert á grundvelli efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda og var lánafyrirgreiðsla til Íslands samþykkt 19. nóvember 2008.

Ísland starfar með Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og myndar kjördæmi með þeim. Sameiginlega kjósa þessi lönd einn fastafulltrúa í framkvæmdastjórn sjóðsins. Löndin skiptast á um að eiga fulltrúa kjördæmisins í fjárhagsnefnd sjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) þar sem hann kemur fram fyrir hönd þeirra allra. Embættismannanefnd (Nordic Baltic Monetary and Financial Committee, NBMFC) fjallar um samstarf landanna og mótar afstöðu þeirra til helstu mála á vettvangi sjóðsins sem gjarnan endurspeglast í ávarpi fulltrúa kjördæmisins á fundum IMFC. Að öðru leyti samhæfa löndin í nánu samtarfi afstöðu sína til mála sem koma til kasta framkvæmdastjórnarinnar.

Einu sinni á ári (áður tvisvar) sendir skrifstofa kjördæmisins frá sér greinargerð um helstu mál sem verið hafa til umræðu í framkvæmdastjórninni.

Greinargerðirnar má finna hér: