Fara beint í Meginmál

Seðlabanki Íslands leggur áherslu á metnaðarfullt starfsumhverfi með það að markmiði að byggja upp trausta liðsheild. Með áherslu á virðingu og vellíðan, jafnrétti, þekkingu, fagmennsku og framsækni nær bankinn markmiðum sínum með árangursríkum hætti.

Framkvæmdastjóri markaðsviðskipta

SEÐLABANKI ÍSLANDS óskar eftir að ráða öflugan leiðtoga í starf framkvæmdastjóra sviðs markaðsviðskipta. Framkvæmdastjóri heyrir beint undir seðlabankastjóra í skipuriti bankans. 

Nánar

Reykjavík - Fullt starf

SEÐLABANKI ÍSLANDS óskar eftir að ráða öflugan leiðtoga í starf framkvæmdastjóra sviðs markaðsviðskipta. Framkvæmdastjóri heyrir beint undir seðlabankastjóra í skipuriti bankans.

Svið markaðsviðskipta er eitt af kjarnasviðum bankans. Meginhlutverk þess er að hafa umsjón með innlendum peninga- og gjaldeyrismarkaði og annast viðskipti bankans við innlendar og erlendar fjármálastofnanir. Sviðið sér um stýringu á efnahagsreikningi bankans, vörslu og ávöxtun gjaldeyrisforða og hefur umsjón með lánamálum ríkissjóðs. Enn fremur hefur sviðið með höndum heildstætt eftirlit með fjárhagsáhættu á efnahagsreikningi Seðlabankans. Þá hefur sviðið umsjón með innlendum og erlendum greiðslum fyrir Seðlabankann og ríkissjóð og sér um kortauppgjör.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Stýrir og leiðir starfsemi sviðs markaðsviðskipta.
  • Mótar stefnu, framtíðarsýn og verklag sviðsins er varðar verkefni sviðsins í samræmi við stefnu og markmið bankans.
  • Ber ábyrgð á upplýsingagjöf tengdri verkefnum sviðsins til bankastjóra, annarra starfseininga og nefnda bankans.
  • Byggir upp sterka liðsheild stjórnenda og sérfræðinga á sviðinu.
  • Situr í framkvæmdastjórn bankans
  • Stuðlar að traustu samstarfi við önnur svið og deildir innan bankans.
  • Ber ábyrgð á samskiptum sviðsins við innlendar og erlendar fjármálastofnanir og opinbera aðila.
  • Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi, s.s. á sviði hagfræði, fjármála, verkfræði eða sambærilegt.
  • Þekking og reynsla af innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, þar með talið innsýn í starfsemi og þróun markaða.
  • Þekking á peningastefnu, bankastarfsemi og fjármálakerfum.
  • Reynsla af stýringu, þróun eða stefnumótun á sviði fjárfestinga, fjármálagerninga eða annarra markaðstengdra afurða.
  • Framúrskarandi greiningarhæfni á peninga- og skuldabréfamörkuðum.
  • Góðir leiðtogahæfileikar og stjórnunarreynsla.
  • Reynsla og færni í stefnumótun og innleiðingu breytinga.
  • Færni í mannlegum samskiptum og árangursríkri teymisvinnu.
  • Frumkvæði, drifkraftur og metnaður til að ná árangri í starfi.
  • Góð færni í að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Íris Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar (mannaudur@sedlabanki.is). Umsóknarfrestur er til og með 7. júlí.

Um er að ræða 100% starfshlutfall með starfsstöð í Reykjavík. Sótt er um starfið á heimasíðu Seðlabanka Íslands, www.sedlabanki.is/storf. Með umsókn þarf að fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu rökstudd.

Við ráðningar í störf hjá Seðlabanka Íslands er tekið mið af jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun bankans og er fólk af öllum kynjum hvatt til að sækja um. Laun greiðast samkvæmt kjarasamningi samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Umsóknir gilda í sex mánuði og öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Vakin er athygli umsækjenda á því að um ráðningarferlið gilda m.a. stjórnsýslulög nr. 37/1993, upplýsingalög nr. 140/2012 og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Sérfræðistörf

Við sérstakar aðstæður getur komið til þess að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands þurfi að semja við sérfræðinga til að sinna tilteknum verkefnum eins og að athuga tiltekna þætti í starfsemi eða rekstri eftirlitsskylds aðila eða til að hafa að öðru leyti sértækt eftirlit með eftirlitsskyldum aðila.

Nánar

Reykjavík - Hlutastarf

Við sérstakar aðstæður getur komið til þess að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands þurfi að semja við sérfræðinga til að sinna tilteknum verkefnum. Þá hefur fjármálaeftirlitið sérstaka heimild til að skipa sérfræðing til að athuga tiltekna þætti í starfsemi eða rekstri eftirlitsskylds aðila eða til að hafa að öðru leyti sértækt eftirlit með eftirlitsskyldum aðila, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Jafnframt hefur fjármálaeftirlitið meðal annars heimild til að skipa við sérstakar aðstæður fjármálafyrirtæki bráðabirgðastjórnanda, sbr. 107. gr. e laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og vátryggingafélagi slitastjórn, sbr. 152. gr. laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi.

Fjármálaeftirlitið tekur við ferilskrám, og eftir atvikum kynningarbréfum, þeirra sem eru reiðubúnir að gefa kost á sér til slíkra starfa. Einnig geta fyrirtæki gefið kost á tilteknum starfsmönnum sínum til slíkra starfa. Leitað er að einstaklingum með fjölbreytta þekkingu og reynslu á sviði lögfræði, viðskiptafræði, hagfræði, verkfræði, fjármálamarkaða, reksturs, stjórnunar, upplýsingatækni, reikningsskila o.fl.

Ferilskrá, og eftir atvikum kynningarbréf, skulu gefa glögga mynd af menntun og reynslu hlutaðeigandi. Upplýsingarnar verða aðgengilegar viðeigandi stjórnendum innan fjármálaeftirlitsins ef til greina kemur að semja við sérfræðing til að sinna tilteknu verkefni. Þá skulu upplýsingar um heimilisfang, símanúmer og netfang fylgja ferilskránni. Jafnframt er mikilvægt að fram komi upplýsingar um tengsl hlutaðeigandi við einstaka eftirlitsskylda aðila. Vakin er athygli á því að almennt koma starfsmenn eftirlitsskyldra aðila ekki til greina til umræddra sérfræðistarfa.

Fyrirspurnir má senda á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is.

Almenn umsókn

Hér getur þú sent inn almenna umsókn í tímabundin störf.

Nánar

Reykjavík - Hlutastarf

Takk fyrir að sýna því áhuga á að starfa með okkur í Seðlabanka Íslands.

Seðlabanka Íslands ber skylda til að auglýsa opinberlega laus störf samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. nánar reglur nr. 1000/2019 um auglýsingar á lausum störfum með síðari breytingum.

Starfsþjálfun

Hér getur þú sent inn umsókn um starfsþjálfun.

Nánar

Reykjavík - Fullt starf

Takk fyrir að sýna því áhuga að koma í starfsþjálfun hjá okkur í Seðlabanka Íslands.

Hér getur þú sótt um að koma til okkar í starfsþjálfun. Við förum reglulega yfir umsóknir og verðum í sambandi ef við höfum lausa starfsþjálfunarstöðu við þitt hæfi. Starfsþjálfun er einstakt tækifæri fyrir háskólanema til að öðlast hagnýta og starfstengda reynslu og er markmið okkar að bjóða reglulega upp á fjölbreytt tækifæri fyrir nemendur til að kynnast verkefnum og starfsemi bankans.

mannaudur@sedlabanki.is