Eitt af meginmarkmiðum Seðlabanka Íslands er að stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi aðila, sem teljast eftirlitsskyldir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem um starfsemina gilda og sé að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
Fjármálaeftirlitsnefnd setur stefnu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og skal veita umsögn um stefnumarkandi áherslur í fjármálaeftirliti. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits undirbýr tillögu að stefnumörkun við framkvæmd fjármálaeftirlits og hefur umsjón með innleiðingu hennar að lokinni umfjöllun í nefndinni.
Í ritinu Fjármálaeftirlit, sem gefið er út árlega, er skýrt frá því hvernig Seðlabankinn vinnur að þeim verkefnum sem honum eru falin á sviði fjármálaeftirlits í lögum. Þar eru eftirlitsskyldir aðilar ennfremur upplýstir um helstu áherslur í yfirstandandi verkáætlun á sviði fjármálaeftirlits og greint er frá nýlegum og væntanlegum breytingum í réttarheimildum fjármálamarkaðar.
Seðlabanki Íslands tekur við og fylgir eftir tilkynningum um brot, grun um brot og tilraunir til brota á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi
Seðlabanki Íslands skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir og reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.
Aðilum sem stunda starfsemi, sem kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka er skylt að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna án tafar um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða vart verði við slíka ólögmæta starfsemi. Hlutverk Seðlabanka Íslands er að hafa eftirlit með þessum aðilum og tryggja að þeir framfylgi ákvæðum laga.