Meginmál

Seðlabankinn hefur eftirlit með að starfsemi Tryggingarsjóðs vegna fjármálafyrirtækja sé í samræmi við lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, reglugerð nr. 120/2000 og samþykktir fyrir sjóðinn, sbr. 15. gr. laganna.

Tryggingarsjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Markmið hans er að veita innstæðueigendum og viðskiptavinum fjármálafyrirtækja lágmarksvernd vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja í samræmi við ákvæði fyrrnefndra laga og laga nr. 70/2020, um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.

Tryggingarsjóðurinn starfar í þremur deildum, þ.e. innstæðudeild, verðbréfadeild og skilasjóði. Um starfsemi innstæðudeildar og verðbréfadeildar er fjallað í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Um framlög til skilasjóðs sem og ráðstöfun fjármuna sjóðsins fer samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Samkvæmt lögunum hefur Tryggingarsjóðnum verið falin umsýsla sjóðsins sem felst einkum í varðveislu og ávöxtun fjármuna sjóðsins en skilavald Seðlabankans tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum.

Ákvæði laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eru byggð á tilskipun 94/19/EB, um innlánstryggingakerfi. Ný tilskipun 2014/49/ESB, um innstæðutryggingakerfi, tók gildi innan ESB í apríl 2014 en hún hefur ekki verið tekin upp í EES samninginn og því enn ekki verið innleidd í íslensk lög. Ákvæði laganna um verðbréfadeild eru að miklu leyti byggð á ákvæðum tilskipunar 97/9/EB, um bótakerfi fyrir fjárfesta. Ákvæði um skilasjóð samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja eru byggð á tilskipun 2014/59/ESB, sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (BRRD).

Viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og, ef við á, lánafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, skulu eiga aðild að innstæðu- og verðbréfadeild Tryggingarsjóðsins, enda hafi þeir staðfestu hér á landi. Sama gildir um útibú þessara aðila innan EES.

Listi yfir aðildarfyrirtæki sjóðsinsNánari upplýsingar um fyrirkomulag útgreiðslna til innstæðueigenda og fjárfesta, sem og úr skilasjóði

Lög, reglur og eyðublöð