Almennt um MiCA
MiCA reglugerðin, reglugerð (ESB) 2023/1114 um markaði fyrir sýndareignir (e. markets in crypto assets) tók gildi í Evrópusambandinu (ESB) í desember 2024 og er hluti af stafrænum fjármálapakka ESB sem var kynntur árið 2020. Frumvarp til laga til að innleiða reglugerðina var lagt fram á Alþingi 29. mars 2025. Ekki náðist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok og stefnt er að því að leggja það fram að nýju á Alþingi í september 2025 samkvæmt þingmálaskrá 157. löggjafarþings.
Samkvæmt MiCA er sýndareign stafræn framsetning á virði eða réttindum sem unnt er að millifæra og varðveita rafrænt með dreifðri færsluskrártækni eða sambærilegri tækni. Ef sýndareign er einkvæm og ekki jafngeng móti öðrum sýndareignum fellur hún ekki undir MiCA og einnig eru tilteknar sýndareignir sérstaklega undanþegnar gildissviði hennar (2.gr.). Sem dæmi má nefna að sýndareignir sem teljast fjármálagerningar falla undir MiFID II / MiFIR regluverkið í stað MiCA, sbr. lög nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga, og innstæður í bönkum eru einnig undanþegnar MiCA.
Markmið MiCA er fjórþætt:
- Stuðla að réttarvissu með það fyrir augum að þróa megi sýndareignir og hagnýta möguleika dreifðrar færsluskrártækni í fjármálaþjónustu í fyrirsjáanlegu umhverfi og með öruggum hætti,
- stuðla að nýsköpun með sýndareignir og því er mikilvægt að til staðar sé örugg og heildstæð umgjörð um slík viðskipti sem styður einnig við heilbrigða samkeppni innan Evrópska efnahagssvæðisins,
- tryggja fullnægjandi neytenda- og fjárfestavernd og heilleika markaða fyrir sýndareignir,
- bregðast við áhættum sem aukin notkun sýndareigna, sérstaklega stöðugleikamynta (e. stablecoins), kann að hafa í för með sér fyrir fjármálastöðugleika og framkvæmd peningastefnu.
Útgefendur og þjónustuveitendur sýndareigna
Hvítbók
MiCA reglugerðin gerir kröfu um að fyrir hverja sýndareign sem gefin er út, og/eða boðin út eða tekin til viðskipta skuli birta hvítbók. Hvítbækur eiga að vera aðgengilegar neytendum og birtar á heimasvæði þeirra sem gefa þær út, og/eða bjóða út sýndareignir eða taka sýndareignir til viðskipta. Hvítbók er upplýsingaskjal sem á að innihalda allar helstu upplýsingar um sýndareignina. Efni og form hvítbókar fer eftir tegund sýndareignarinnar, þ.e. hvort um er að ræða eignatengdan tóka (19. gr.), rafeyristóka (51. gr.) eða aðra sýndareign (6. gr.), en í viðauka I.-III. með MiCA reglugerðinni má finna nánari útfærslu á framsetningu hvítbóka. Dæmi um það sem hvítbók skal innihalda eru upplýsingar um:
- Útgefanda, tilboðsgjafa eða aðila sem sækist eftir töku til viðskipta,
- verkefnið sem á að framkvæma með því fjármagni sem aflað verður,
- almenna útboðið á sýndareignum eða um töku þeirra til viðskipta,
- réttindi og skyldur sem tengjast sýndareignum,
- undirliggjandi tækni sem notuð er að því er varðar slíkar sýndareignir,
- loftlagsáhrif tengdri útgáfu sýndareignarinnar og
- þá áhættu sem fylgir sýndareigninni.
Hvítbók um sýndareignir á hins vegar ekki að innihalda lýsingu á áhættu sem ekki er hægt að sjá fyrir og mjög ólíklegt er að komi fram. Upplýsingarnar í hvítbókinni um sýndareignir, sem og í viðeigandi markaðsefni, s.s. í auglýsingum og markaðsefni, eiga að vera sanngjarnar, skýrar og ekki villandi.
Í MiCA er skilyrði um að Seðlabankinn samþykki útgáfu eignatengds tóka, og þar með hvítbókina sem fylgir, en ekki er gerð krafa um fyrir fram samþykki Seðlabankans varðandi hvítbækur um aðrar sýndareignir. Senda skal þó hvítbækurnar til Seðlabankans, fyrir birtingu þeirra, sem fer yfir þær og hefur heimild til þess að krefjast lagfæringa ef hann telur að hvítbók uppfylli ekki kröfur um efni og form. Seðlabankanum ber svo að senda hvítbækur áfram til birtingar í miðlægri skrá hjá ESMA sem er aðgengileg öllum.
Þann 23. desember 2025 tekur í gildi í Evrópu reglugerð (ESB) 2024/2984 sem kveður nánar á um snið og sniðmát hvítbóka og eru aðilar sem hyggjast gefa út hvítbækur hvattir til að kynna sér efni reglugerðarinnar sem gert er ráð fyrir að verði innleidd með reglum Seðlabankans.
Flokkun sýndareigna í MiCA
MiCA skiptir sýndareignum upp í þrjá flokka, þ.e. eignatengda tóka, rafeyristóka og svo þriðja flokkinn sem er safnflokkur fyrir allar sýndareignir sem teljast hvorki vera eignatendir tókar né rafeyristókar.
Eignatengdir tókar
Tegund sýndareignar sem er ekki rafeyristóki og felur í sér skuldbindingu um að viðhalda stöðugu virði miðað við annað virði, annan rétt eða sambland af hvoru tveggja, þ.m.t. einn eða fleiri opinbera gjaldmiðla. Sem dæmi gæti virði eignatengds tóka verið bundinn við gjaldmiðil, verðbréf og hrávöru í bland.
Rafeyristókar
Tegund sýndareignar sem felur í sér skuldbindingu um að viðhalda stöðugu virði miðað við virði eins opinbers gjaldmiðils. Sem dæmi þá myndi einn rafeyristóki sem væri bundinn við íslenska krónu jafngilda einni íslenskri krónu.
Sýndareignir aðrar en eignatengdir tókar og rafeyristókar
Aðrar sýndareignir sem teljast hvorki vera eignatengdir tókar né rafeyristókar. Þessar sýndareignir eru þess eðlis að þær hafa ekki það markmið að halda verði sínu stöðugu.
Starfsleyfi
Misjafnar kröfur eru eftir tegund tóka og einnig hvort aðili hafi annað starfsleyfi nú þegar.
Útgefendur eignatengdra tóka
Sérstakt starfsleyfi þarf til að gefa út eignatengdan tóka, sbr. 18. gr. MiCA. Aðilar með leyfi sem lánastofnun geta gefið út eignatengdan tóka en þurfa þó að fá samþykki fyrir því, sbr. 17. gr. MiCA.
Útgefendur rafeyristóka
Aðeins lánastofnanir og rafeyrisfyrirtæki geta gefið út rafeyristóka, sbr. 48. gr. MiCA.
Þjónustuveitendur sýndareigna (CASP)
Eftir gildistöku MiCA þurfa allir aðilar sem veita þjónustu með sýndareignir að hafa starfsleyfi sem þjónustuveitandi sýndareigna, sbr. 59. gr. MiCA. Þetta er stór breyting frá núgildandi kröfum þar sem einungis var krafist skráningar sem þjónustuveitandi sýndareigna á grundvelli laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka en ekki starfsleyfis. Þetta þýðir að nú eru auknar kröfur lagðar á þjónustuveitendur sýndareigna en upptalning á því hvað umsókn þarf að innihalda og hvaða skjöl og gögn þurfa að vera til staðar má finna í 62. gr. MiCA. Að auki má nefna eftirfarandi kröfur sem gilda um þjónustuveitendur sýndareigna:
- Starfa af heiðarleika, sanngirni og fagmennsku – 66. gr.
- Varfærniskröfur – 67. gr.
- Fyrirkomulag stjórnarhátta – 68. gr.
- Varðveisla sýndareigna og fjármuna viðskiptavina – 70. gr.
- Verklagsreglur um meðferð kvartana – 71. gr.
- Ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra – 72. gr.
- Útvistun – 73. gr.
- Skuldbindingar í tengslum við tiltekna þjónustu – 75.-82. gr.
Þeir sem eru, við gildistöku laganna, skráðir sem þjónustuveitendur sýndareigna á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka mega starfa sem slíkir til 1. júní 2026 en eftir þann tíma er þeim óheimilt að veita þjónustuna án starfsleyfis.
Aðilar sem hafa önnur starfsleyfi eins og lánastofnun, verðbréfamiðstöð, verðbréfafyrirtæki, rekstraraðili markaðar, rafeyrisfyrirtæki, rekstrarfélag verðbréfasjóðs eða rekstraraðili sérhæfðs sjóðs, er heimilt að veita þjónustu á sviði sýndareigna ef þau tilkynna Seðlabankanum um þá fyrirætlan sína ásamt þeim upplýsingum sem tilteknar eru í 7. mgr. 60. gr. MiCA.
Markaðssvik
Innherjasvik
MiCA skilgreinir innherjaupplýsingar að miklu leyti á sama hátt og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum. Hugtakanotkunin er aðeins önnur þar sem vísað er til sýndareigna en ekki fjármálagerninga og tekið er mið af dreifstýrðum eiginleikum þeirra. MiCA setur jafnframt reglur um opinbera birtingu innherjaupplýsinga auk þess að leggja bann við ólögmætri miðlun þeirra og innherjasvikum, þ.e. viðskiptum á grundvelli innherjaupplýsinga.Markaðsmisnotkun
Markaðsmisnotkun
MiCA leggur bann við markaðsmisnotkun og tilraun til markaðsmisnotkunar. Markaðsmisnotkun getur falið í sér viðskipti, framlagningu viðskiptafyrirmæla eða annað athæfi sem gefur eða er líklegt til að gefa rangar eða villandi vísbendingar um framboð, eftirspurn eftir eða verð sýndareignar annars vegar, og tryggir eða er líklegt til að tryggja óeðlilegt verð einnar eða fleiri sýndareigna hins vegar. Dreifing villandi eða rangra upplýsinga í gegnum fjölmiðla og á netinu getur einnig falið í sér markaðsmisnotkun. Þá er öllum þeim aðilum sem sjá um eða framkvæma viðskipti með sýndareignir í atvinnuskyni gert skylt að hafa til staðar skilvirkt fyrirkomulag, kerfi og verklag til að koma í veg fyrir og greina markaðssvik.
Markaðsaðilar eru hvattir til að kynna sér sérstaklega reglur MiCA um markaðssvik því ofangreind umfjöllun er ekki tæmandi.
Markaðssetning sýndareigna, viðskiptahættir og neytendavernd
Eitt af markmiðum MiCA reglugerðarinnar er að auka neytendavernd með því að tryggja að útgefendur og þjónustuveitendur sýndareigna fylgi skýrum reglum um upplýsingagjöf og viðskiptahætti.
Markaðssetning sýndareigna
Ákvæði MiCA reglugerðarinnar er snúa að markaðssetningu er ætlað að vernda fjárfesta, tryggja gagnsæi og koma í veg fyrir villandi upplýsingar. Í reglugerðinni eru gerðar kröfur til markaðsefnis í tengslum við:
- Útboð sýndareigna eða töku til viðskipta, sbr. 7., 29. og 53. gr. MiCA.
- Markaðssetningu þjónustu þjónustuveitanda sýndareigna, sbr. 79. gr. MiCA.
Skilyrði er að búið sé að birta hvítbók (sjá umfjöllun um hvítbækur framar) áður en markaðsefni er birt.
Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
Umfang viðskipta með sýndareignir hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma. Viðskipti með sýndareignir eru alþjóðleg og auðvelt að eiga þau yfir landamæri, auk þess sem mikill hraði einkennir slík viðskipti. Af því leiðir að það getur reynst erfitt að hafa vitneskju um uppruna sýndareigna og raunverulega eigendur. Allir framangreindir eiginleikar eru aðlaðandi fyrir aðila sem leitast eftir því að þvætta fjármuni.
Í lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er rauði þráðurinn áhættumiðuð nálgun sem birtist í samverkandi skyldum. Þær skyldur mynda saman áhættumiðaðar og fyrirbyggjandi aðgerðir, m.a. áhættumat á starfsemi, áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum, stefna, stýringar og verkferlar, reglubundið eftirlit og áreiðanleikakönnun. Sjá nánar yfirlit yfir þær aðgerðir sem tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til og innleiða á grundvelli laganna hér.
Með hliðsjón af eðli sýndareigna teljast þær áhættusamar og hafa þær verið flokkaðar sem slíkar hjá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA), Alþjóðlega fjármálaaðgerðahópnum (Financial Action Task Force (FATF)) og í áhættumati Ríkislögreglustjóra. Þjónusta og starfsemi með sýndareignir er áhættusöm þegar kemur að peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og af þeim sökum er mikilvægt að aðilar sem starfi á slíkum markaði og með slíkar vörur kynni sér lög nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Yfirlit yfir afleiddar reglugerðir og viðmiðunarreglur
Samkvæmt MiCA er framkvæmdastjórn ESB falið að setja afleiddar reglugerðir til nánari útfærslu á ýmsum efnisatriðum hennar. Gert er ráð fyrir að hluti þessara gerða verði innleiddur með reglugerð ráðherra en að flestar verði þær innleiddar með reglum Seðlabankans.
Eftirfarandi eru viðmiðunarreglur sem evrópsku eftirlitsstofnunum er falið að setja samkvæmt MiCA til þess að útfæra nánar einstök ákvæði reglugerðarinnar og gert er ráð fyrir að verði teknar upp af Seðlabankanum: