Fara beint í Meginmál

Fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í júní 2025

Fjármálastöðugleikanefnd
Fjármálastöðugleikanefnd

Fundargerð fyrir fund fjármálastöðugleikanefndar frá 2. og 3. júní 2025 hefur verið birt.

Á fundi nefndarinnar fékk hún kynningu á stöðu og horfum í efnahagsmálum og fyrir fjármálastöðugleika. Nefndin ræddi helstu áhættuþætti fjármálastöðugleika á Íslandi og alþjóðlega þróun. Meðal annars var farið yfir þróun á innlendum fjármálamörkuðum, skuldsetningu heimila og fyrirtækja, stöðu á fasteignamarkaði og viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja, þ. á m. eiginfjár- og lausafjárstöðu þeirra. Þá ræddi nefndin sérstaklega lánþegaskilyrðin, stefnumörkun Seðlabankans um greiðslumiðlun og fyrirkomulag lausafjárfyrirgreiðslu bankans. Þá fékk nefndin kynningu á horfum um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Sérstök umræða var um stöðu byggingarfélaga og útlán bankakerfisins til þeirra. Þá fékk nefndin kynningu á fjárfestingu og fjármögnun verkefna í landeldi.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5% af innlendum áhættugrunni. Það er við efri mörk þess bils sem nefndin hefur skilgreint sem hlutlaust gildi hans, þ.e. 2-2,5%. Nefndin undirstrikaði mikilvægi þess að unnið yrði áfram að auknu rekstraröryggi í greiðslumiðlun. Jafnframt lagði hún áherslu á að fjármálainnviðir hér á landi skyldu vera öruggir, skilvirkir, hagkvæmir og aðgengilegir. Áfram skyldi unnið markvisst að auknum viðnámsþrótti í greiðslumiðlun, sem fæli meðal annars í sér að koma á laggirnar varalausnum, m.a. innlendri óháðri smágreiðslulausn og greiðslukortalausn án nettengingar.