Góðir stjórnarhættir eru grundvöllur þess að Seðlabanki Íslands nái markmiðum sínum.
Hér má finna ýmsar upplýsingar um meginþætti stjórnarhátta Seðlabankans.
Skipurit Seðlabanka Íslands
Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar
Ráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn. Ráðherra skipar einnig þrjá varaseðlabankastjóra til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiðir málefni sem varða peningastefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjármálaeftirlit.
Seðlabankastjóri
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri frá og með 20. ágúst 2019.
Varaseðlabankastjórar
Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, frá og með 1. maí 2023.
Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, frá og með 1. ágúst 2024.
Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, frá og með 15. janúar 2025.
Bankaráð Seðlabankans
Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum.
Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Eftirlit bankaráðs tekur þó ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum.
- Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
- Staðfesta tillögur seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra að skipulagi bankans.
- Ákveða laun og starfskjör fulltrúa í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd.
- Staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.
- Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða innri endurskoðanda.
- Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
- Staðfesta tillögu Seðlabankans til ráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans.
- Staðfesta ársreikning bankans.
- Staðfesta ákvörðun bankans um eiginfjármarkmið og ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar.
- Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem seðlabankastjóri leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
- Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um fjárfestingar í húsnæði og annarri aðstöðu fyrir starfsemina sem teljast meiri háttar.
- Staðfesta gjaldskrá.
Aðalmenn:
Arnar Bjarnason
Gylfi Magnússon, formaður
(Sigríður Andersen)
Þórunn Guðmundsdóttir
Kirstín Þ. Flygenring
Sigurjón Arnórsson
Þorsteinn Víglundsson
Varamenn:
Aðalheiður Sigursveinsdóttir
Þórlindur Kjartansson
Kristín Thoroddsen
Hildur Traustadóttir
Vilhjálmur Þorsteinsson
Oddný Árnadóttir
Jarþrúður Ásmundsdóttir
Nefndir
Markmið og gildi
Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá sinnir bankinn öðrum viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir markmiði um verðbólgu sem og markmiði um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Á þessum grundvelli hafa forsætisráðherra og Seðlabankinn lýst því yfir að Seðlabankinn muni stefna að því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2½%. Að því beinist framkvæmd peningastefnu bankans.
Seðlabankinn fylgir eftir fjármálastöðugleikamarkmiði sínu með því að stuðla að því að fjármálakerfið búi yfir nægum viðnámsþrótti til að standast áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, geti miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.
Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi
Seðlabankinn skal fylgjast með og fylgja því eftir að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þá er Seðlabankanum falið skilavald sem felst í ákvörðun um skilameðferð og beitingu skilaúrræða lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem eru á fallandi fæti.
Þá hefur Seðlabankinn það hlutverk að hafa eftirlit með öryggi og virkni grunninnviða íslensks fjármálakerfis, þ.e. kerfislega mikilvægra fjármálainnviða ásamt því að heildstætt stuðla að öryggi og virkni greiðslumiðlunar í landinu og við útlönd.
Gildi
Seðlabankinn hefur sett sér fjögur gildi til að fara eftir í starfsemi sinni; heilindi, áræðni, auðmýkt og fagmennsku. Gildin skulu vera leiðarvísir við störf og samskipti allra starfsmanna Seðlabankans. Hér á eftir fer útfærsla á merkingu gildanna.
Heilindi
Við erum heiðarleg og samkvæm í orðum okkar, athöfnum og ákvörðunum.
Áræðni
Við höfum dug og þor til að taka erfiðar ákvarðanir og fylgja þeim eftir.
Auðmýkt
Við rækjum hlutverk okkar af auðmýkt gagnvart viðfangsefnum Seðlabankans og því valdi sem honum er falið.
Fagmennska
Við leggjum áherslu á að viðhafa skilvirk, vönduð og góð vinnubrögð.
Stefnur og reglur
Seðlabankinn setur sér stefnur vegna lögformlegra markmiða bankans á sviðum peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits þ.e. málefnastefnur. Málefnastefnur eru samþykktar af viðeigandi fastanefnd og undirritaðar af seðlabankastjóra og hlutaðeigandi varaseðlabankastjóra.
Stefna í fjármálaeftirliti er birt opinberlega á vefsíðu Seðlabankans og tekur til þeirrar starfsemi sem fjármálaeftirlitinu er falið í lögum og lýsir megináherslum og framkvæmd Seðlabankans við eftirlit á fjármálamarkaði.
Stefna í peningamálum er birt opinberlega á vefsíðu Seðlabankans og er heildarumgjörð um ákvarðanir í peningamálum og hvernig þeim er miðlað til almennings.
Opinber stefna um fjármálastöðugleika er birt á vef stjórnaráðsins. Fjármálastöðugleikaráð mótar opinbera stefnu um fjármálastöðugleika sem Seðlabankanum ber að framfylgja sbr. lög nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð.
Tvær stefnur heyra undir Stefnu í fjármálaeftirliti, þ.e. Stefna um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og Stefna um opinbera birtingu í niðurstöðu stjórnsýslumála sem er í endurskoðun.
Seðlabankinn setur sér einnig almennar stefnur sem snúa að innri starfsemi bankans til að treysta starfsemi Seðlabankans og styðja við lögbundið markmið bankans. Stefnurnar eru leiðarvísir fyrir starfsmenn bankans og lýsa tilgangi, markmiðum og megináherslum mikilvægra þátta í starfsemi hans.
Á heimasíðu Seðlabankans er að finna innri stefnur bankans sem birtar eru opinberlega.
Innra eftirlit
Starfsemi Seðlabankans fylgir margvísleg fjárhagslega áhætta og rekstraráhætta sem gætu gert bankanum erfitt um vik eða hindrað hann í að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti og ná lögboðnum markmiðum sínum. Því er mikilvægt að Seðlabankinn hafi yfir að ráða virku innra eftirlitskerfi til að greina, meta, stýra og vakta áhættu í starfsemi bankans sem gerir hann hæfari til að uppfylla markmið sín.
Seðlabankinn starfar eftir líkani þriggja lína þar sem úthlutun ábyrgðar á innra eftirliti er þrískipt. Í fyrstu línu eru viðskipta- og stoðeiningar og bera framkvæmdastjórar hverrar einingar ábyrgð á að viðhalda skilvirku innra eftirliti í starfsemi sinni. Í því felst að greina, meta umfang og stýra áhættu, þróa og innleiða eftirlitsaðgerðir og fylgjast með árangri þeirra. Áhættustýring er í annarri línu ásamt regluvörslu og persónuverndarfulltrúa. Hvor um sig er sjálfstæð eftirlitseining á sviði skrifstofu bankastjóra og fylgist með framkvæmd innra eftirlits hjá fyrstu línu. Í þriðju línu er innri endurskoðun sem framkvæmir óháð mat á virkni og gæði fyrstu og annarrar línu.