Góðir stjórnarhættir eru grundvöllur þess að Seðlabanki Íslands nái markmiðum sínum.
Hér má finna ýmsar upplýsingar um meginþætti stjórnarhátta Seðlabankans.
Skipurit Seðlabanka Íslands
Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar
Seðlabankastjóri
Varaseðlabankastjórar
Seðlabankastjórar frá upphafi
Frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 til ársins 2025 hafa 20 einstaklingar gegnt embætti seðlabankastjóra. Frá 1961 og til febrúar 2009 skipuðu þrír einstaklingar bankastjórn, þar af var einn formaður bankastjórnar. Eftir breytingu á lögum um Seðlabankann 2009 var aðeins einn bankastjóri og einn aðstoðarseðlabankastjóri til 2020. Samkvæmt lögum sem tóku gildi 2020 er einn seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar.
Frá 1961 til 2001 kusu bankastjórarnir formann bankastjórnar úr eigin röðum til þriggja ára í senn. Samkvæmt lögum sem tóku gildi 2001 skipaði ráðherra formann bankastjórnar. Frá 2009 hefur ráðherra skipað seðlabankastjóra til fimm ára í senn með möguleika á endurskipun einu sinni, þannig að seðlabankastjóri getur verið skipaður að hámarki til tíu ára. Við stofnun bankans var skipun seðlabankastjóra ekki bundin við tiltekinn embættistíma.
Seðlabankastjórar frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 eru eftirtaldir:
Jón G. Maríasson 1961-1967
Formaður bankastjórnar 1961-1964
Jón Guðmundsson Maríasson (1898-1970) var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans 1961. Jón hóf um tvítugt störf í útibúi Landsbankans á Ísafirði eftir að hafa stundað verslunarnám í Kaupmannahöfn og verslunarstörf þar og á Ísafirði. Þar var hann kjörinn bæjarfulltrúi fyrir Íhaldsflokkinn árið 1928. Árið 1930 tók Jón við starfi í aðalstöðvum bankans í Reykjavík og vann sig smám saman upp, var bókari, aðalbókari og aðstoðarbankastjóri og varð einn af bankastjórum bankans árið 1945 og síðan einn af bankastjórum í Landsbankanum-Seðlabankanum frá 1957-1961. Við stofnun Seðlabanka Íslands 1961 var hann skipaður einn af þremur seðlabankastjórum og var af þeim valinn fyrsti formaður bankastjórnar.
Jóhannes Nordal 1961-1993
Formaður bankastjórnar 1964-1993
Jóhannes Nordal (1924-2023) var skipaður seðlabankastjóri við stofnun bankans 1961 og gegndi því embætti sleitulaust til 1993. Jóhannes hafði lokið doktorsprófi í félagsfræði frá London School of Economics, en hafði áður hlotið BS-gráðu í hagfræði. Jóhannes kom ungur til starfa í Landsbanka Íslands, fyrst meðfram námi. Í Landsbankanum stýrði Jóhannes meðal annars hagfræðideild bankans og var hagfræðingur Landsbankans frá 1954. Hann tók við stöðu bankastjóra Landsbankans-Viðskiptabankans um áramótin 1958/59 áður en hann var skipaður einn af þremur bankastjórum Seðlabanka Íslands við stofnun hans 1961. Hann gegndi svo stöðu formanns bankastjórnar Seðlabankans frá 1964 þar til hann lét af störfum árið 1993. Jóhannes var einnig formaður stjórnar Landsvirkjunar frá 1965 til 1995 og gegndi margvíslegum fleiri trúnaðarstörfum sem tengdust efnahagslífi, menningarlífi og fræðasamfélagi á Íslandi. Jóhannesi var veitt heiðursdoktorsnafnbót við félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 1988 og við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans árið 1989.
Vilhjálmur Þór 1961-1964
Sigtryggur Klemensson 1966-1971
Davíð Ólafsson 1967-1986
Svanbjörn Frímannsson 1971-1973
Guðmundur Hjartarson 1974-1984
Tómas Árnason 1985-1993
Tómas Árnason (1923-2014) var skipaður seðlabankastjóri árið 1985. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1949, rak málflutningsskrifstofu á Akureyri, stundaði framhaldsnám við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum 1951-1952 og lauk þar prófi í alþjóðaverslunarrétti. Hann varð héraðsdómslögmaður 1950 og hæstaréttarlögmaður 1964. Hann var starfsmaður í utanríkisráðuneytinu 1953-1960 og forstöðumaður og deildarstjóri varnarmáladeildar frá stofnun hennar 1953 til 1960. Þá rak hann málflutningsskrifstofu 1960–1972. Hann var framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1978 og 1983–1984. Tómas gegndi um ævina ýmsum störfum og trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og var fulltrúi Íslands í stjórnum og samkomum á erlendum vettvangi.
Tómas var alþingismaður Austurlands 1974–1984 fyrir Framsóknarflokkinn, var fjármálaráðherra 1978–1979 og viðskiptaráðherra 1980–1983.
Geir Hallgrímsson 1986-1990
Geir Hallgrímsson (1925-1990) var skipaður seðlabankastjóri árið 1986. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1948 og stundaði framhaldsnám í lögfræði og hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hlaut héraðsdómslögmannsréttindi 1951 og hæstaréttarlögmannsréttindi 1957.
Geir rak málaflutningsskrifstofu í Reykjavík 1951–1959 og var forstjóri H. Benediktsson hf. 1955–1959 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var formaður hans frá 1973 til 1983.
Geir var borgarstjóri í Reykjavík 1959–1972 og alþingismaður Reykvíkinga 1970–1983 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var forsætisráðherra 1974-1978 og utanríkisráðherra 1983-1986.
Birgir Ísleifur Gunnarsson 1991-2005
Formaður bankastjórnar 1994-2005, skipaður formaður 2001 samkvæmt nýsettum lögum
Birgir Ísleifur Gunnarsson (1936-2019) var skipaður seðlabankastjóri 1994. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1961, varð héraðsdómslögmaður 1962 og hæstaréttarlögmaður 1967.
Hann var framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna 1961–1963 og rak eigin lögmannsstofu í Reykjavík 1963–1972. Birgir sat í ýmsum stjórnum og nefndum á vegum Sjálfstæðisflokksins.
Birgir var borgarstjóri í Reykjavík 1972–1978, var alþingismaður Reykvíkinga 1979–1991 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var menntamálaráðherra 1987–1988.
Jón Sigurðsson 1993-1994
Formaður bankastjórnar 1993-1994
Jón Sigurðsson (1941) var skipaður seðlabankastjóri í júlí 1993. Hann lauk fil.kand.- prófi í þjóðhagfræði, tölfræði o. fl. frá Stokkhólmsháskóla 1964 og MSc Econ.-prófi í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science 1967.
Jón var hagfræðingur við Efnahagsstofnun 1964–1967, deildarstjóri hagdeildar þar 1967–1970 og hagrannsóknastjóri þar 1970–1971, forstöðumaður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972–1974 og forstjóri Þjóðhagsstofnunar 1974–1986. Hann var fastafulltrúi Norðurlanda í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980–1983. Jón sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Íslands hönd á innlendum og erlendum vettvangi.
Jón var alþingismaður Reykvíkinga frá 1987-1991 fyrir Alþýðuflokkinn og alþingismaður Reyknesinga 1991-1993. Hann var dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra 1987–1988, og iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1988–1993.
Eftir að Jón lét af störfum í Seðlabankanum varð hann aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans í Helsinki frá 1994 til 2005. Hann var formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins 2008-2009.
Jón átti sæti í stjórn Hins íslenska bókmenntafélags frá 2006 til 2022. Hann var kjörinn forseti Hins íslenska bókmenntafélags 2015 og gegndi því embætti til 2022.
Eiríkur Guðnason 1994-2009
Eiríkur Guðnason (1945-2011) var skipaður seðlabankastjóri árið 1994. Hann lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1970. Hann hóf störf við hagfræðideild Seðlabankans 1969, varð forstöðumaður peningamáladeildar 1977 og aðalhagfræðingur bankans 1984. Árið 1987 varð Eiríkur aðstoðarseðlabankastjóri og 1994 var hann skipaður seðlabankastjóri.
Eiríkur sat í stjórn Verðbréfaþings Íslands frá stofnun þess 1985 til ársins 2009, lengst af sem formaður. Hann sat í stjórn Reiknistofu bankanna um tíma og í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs frá 2006 til 2009.
Steingrímur Hermannsson 1994-1998
Steingrímur Hermannsson (1928-2010) var skipaður seðlabankastjóri árið 1994. Hann lauk BSc.-prófi í rafmagnsverkfræði frá Illinois Institute of Technology í Chicago 1951 og MSc.-prófi frá California Institute of Technology í Pasadena 1952. Steingrímur var verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952–1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni hf. 1953–1954. Hann var verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955–1956, framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs ríkisins 1957–1978 og framkvæmdastjóri atvinnumálanefndar ríkisins 1957–1961.
Steingrímur var í hreppsnefnd Garðahrepps 1970–1974. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og var formaður hans 1979–1994. Hann sat í stjórn Framkvæmdasjóðs 1969-1971, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972-1978 og sat í bankaráði Landsbanka Íslands 1991-1994.
Steingrímur var alþingismaður Vestfirðinga 1971-1987 og alþingismaður Reyknesinga 1987-1994 fyrir Framsóknarflokkinn.
Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra 1978–1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980–1983, forsætisráðherra 1983–1987 og 1988–1991 og utanríkisráðherra 1987–1988.
Finnur Ingólfsson 2000-2002
Finnur Ingólfsson (1954) var skipaður seðlabankastjóri árið 2000. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1984. Hann var framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Kötlu 1975–1976 og framkvæmdastjóri Prjónastofunnar Dyngju 1977–1978. Þá var hann aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra 1983–1987 og aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1987–1991.
Finnur var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands 1981–1982 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, var gjaldkeri flokksins 1986-1994 og varaformaður 1998-2001.
Finnur var alþingismaður Reykvíkinga 1991–1999 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1995–1999. Eftir að störfum Finns í Seðlabankanum lauk tók hann þátt í ýmsum verkum í atvinnulífinu, m.a. fjárfestingu í Búnaðarbankanum og var um tíma forstjóri tryggingafélagsins VÍS.
Ingimundur Friðriksson 2002-2003 (settur), 2006-2009 (skipaður)
Ingimundur Friðriksson (1950) var settur seðlabankastjóri 2002-2003 og skipaður árið 2006. Hann lauk BA-prófi í hagfræði frá University of South Florida 1973 og MA-prófi í hagfræði frá University of Virginia 1975. Hann var hagfræðingur í Seðlabankanum frá 1975 til 1982, þá varð hann aðstoðarmaður fastafulltrúa Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til 1984, því næst hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabankans til 1986 og loks forstöðumaður hennar til 1991. Þá varð hann varafastafulltrúi Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nokkra mánuði þar til hann varð fastafulltrúi Norðurlandanna og síðar einnig Eystrasaltslandanna í framkvæmdastjórn sjóðsins til 1993.
Ingimundur var ráðunautur bankastjórnar Seðlabankans 1993-1994 og aðstoðarbankastjóri 1994-2002. Hann var settur bankastjóri í Seðlabankanum 2002-2003, tók þá aftur við starfi aðstoðarbankastjóra til 2006 er hann var skipaður seðlabankastjóri og gegndi því embætti til febrúar 2009.
Eftir það réðst Ingimundur til Seðlabanka Noregs og starfaði þar til 2016. Hann varð ráðgjafi á sviði alþjóðasamskipta og á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands 2016-2018 og ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans frá 2020.
Jón Sigurðsson 2003-2006
Jón Sigurðsson (1946-2021) var skipaður seðlabankastjóri árið 2003. Hann brautskráðist árið 1969 með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann vann við kennslustörf í gagnfræðaskólum, menntaskólum og háskólum hér á landi og í Svíþjóð til ársins 1975. Hann útskrifaðist með MA-gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og með doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.
Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Hann tók þá við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst og varð síðar rektor Samvinnuháskólans á Bifröst til ársins 1991. Hann var framkvæmdastjóri Vinnumálasambandsins 1997-1999.
Jón var iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006–2007. Hann var formaður Framsóknarflokksins á sama tíma.
Davíð Oddsson 2005-2009
Formaður bankastjórnar 2005-2009
Davíð Oddsson (1948) var skipaður seðlabankastjóri árið 2005. Hann lauk prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1976. Davíð var skrifstofustjóri Leikfélags Reykjavíkur 1970-1972, þingfréttaritari Morgunblaðsins 1973-1974, starfsmaður Almenna bókafélagsins 1975, skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur 1976-1978 og framkvæmdastjóri þess 1978-1982.
Davíð sinnti margvíslegum trúnaðar- og stjórnarstörfum fyrir Reykjavíkurborg og stjórnvöld og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1989-1991 og formaður hans 1991-2005.
Davíð var alþingismaður Reykvíkinga 1991-2003 og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2005 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Davíð var forsætisráðherra 1991-2004, utanríkisráðherra 2004-2005 og fór jafnframt með dóms- og kirkjumálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið í skamman tíma.
Svein Harald Øygard 2009-2009 (settur)
Már Guðmundsson 2009-2019
Már Guðmundsson (1954) var skipaður seðlabankastjóri til 5 ára frá 19. ágúst 2009 og var endurskipaður til 5 ára frá 19. ágúst 2014.
Már útskrifaðist frá háskólanum í Essex í Bretlandi árið 1979 með BA-gráðu í hagfræði og frá háskólanum í Cambridge í Bretlandi með M.phil.-gráðu í hagfræði árið 1980. Á árunum 1987-1988 stundaði hann doktorsnám í hagfræði við háskólann í Cambridge.
Már var hagfræðingur í Seðlabankanum frá 1980 til 1988 er hann varð efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra og gegndi því starfi til ársins 1991. Þá réðst hann á ný til Seðlabankans og gegndi þar fyrst um sinn starfi forstöðumanns á hagfræðisviði til ársins1994 er hann varð aðalhagfræðingur bankans og framkvæmdastjóri hagfræðisviðs. Á árunum 2004 til 2009 gegndi Már starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Að loknum embættistíma sínum í Seðlabankanum hefur Már sinnt ýmsum rannsóknar- og ráðgjafarstörfum, m.a. fyrir samtök seðlabanka í Suðaustur Asíu og íslensk stjórnvöld.
Samhliða meginstörfum sínum hefur Már setið í marvíslegum stjórnum og nefndum, og sinnt tímabundnum verkefnum. Má þar t.d. nefna formennsku í nefnd á vegum Reykjavíkurborgar um orkustefnu 2002-2004, stjórnarsetu í Íslenska járnblendifélaginu 2000-2003, ráðgjöf á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við seðlabankann í Trinidad og Tobago 1998-1999 og formennsku í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda 1989-1991. Auk þess hefur Már verið í ritstjórnun hagfræðitímarita hjá Alþjóðagreiðslubankanum, í Bretlandi og á Íslandi.
Ásgeir Jónsson 2019-
Ásgeir Jónsson (1970) var skipaður seðlabankastjóri árið 2019 til fimm ára og endurskipaður árið 2024. Hann lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, meistaraprófi í hagfræði frá háskólanum í Indiana 1997 og doktorsprófi í hagfræði frá sama skóla árið 2001. Hann var um tíma hagfræðingur verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar. Á árunum 2000-2004 var Ásgeir sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun og samhliða því stundakennari við Háskóla Íslands. Ásgeir var forstöðumaður í greiningardeild og aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004-2011.
Ásgeir starfaði við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004, fyrst sem lektor og síðan dósent. Hann varð deildarforseti við hagfræðideild árið 2015. Hann hefur einnig gegnt öðrum ábyrgðar- og ráðgjafarstörfum fyrir bæði stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila, m.a. sem formaður starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar á árunum 2016-2018.
Ásgeir hefur ritað fjölda fræðilegra greina og bóka um hagsögu og efnahagsmál, svo sem bókina „Why Iceland“ og „The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World‘s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse.“
Bankaráð Seðlabankans
Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum.
Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Eftirlit bankaráðs tekur þó ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum.
- Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
- Staðfesta tillögur seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra að skipulagi bankans.
- Ákveða laun og starfskjör fulltrúa í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd.
- Staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.
- Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða innri endurskoðanda.
- Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
- Staðfesta tillögu Seðlabankans til ráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans.
- Staðfesta ársreikning bankans.
- Staðfesta ákvörðun bankans um eiginfjármarkmið og ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar.
- Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem seðlabankastjóri leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
- Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um fjárfestingar í húsnæði og annarri aðstöðu fyrir starfsemina sem teljast meiri háttar.
- Staðfesta gjaldskrá.
Aðalmenn (frá 18.6.2025):
Bolli Héðinsson, formaður
Guðrún Johnsen
Gylfi Zoega, varaformaður
Oddný Árnadóttir
Birgir Ármannsson
Ólafur Ísleifsson
Arnar Bjarnason
Varamenn (frá 18.6.2025):
Freyja Vilborg Þórarinsdóttir
Katrín Ólafsdóttir
Katrín Viktoría Leiva
Teitur Björn Einarsson
Bessí Þóra Jónsdóttir
Aðalheiður Sigursveinsdóttir
Gunnar Axel Axelsson (kosinn af Alþingi 17. september 2025 í stað Gunnars Alexanders Ólafssonar)
Nefndir
Markmið og gildi
Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá sinnir bankinn öðrum viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir markmiði um verðbólgu sem og markmiði um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Á þessum grundvelli hafa forsætisráðherra og Seðlabankinn lýst því yfir að Seðlabankinn muni stefna að því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2½%. Að því beinist framkvæmd peningastefnu bankans.
Seðlabankinn fylgir eftir fjármálastöðugleikamarkmiði sínu með því að stuðla að því að fjármálakerfið búi yfir nægum viðnámsþrótti til að standast áföll í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum, geti miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.
Markmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi
Seðlabankinn skal fylgjast með og fylgja því eftir að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Þá er Seðlabankanum falið skilavald sem felst í ákvörðun um skilameðferð og beitingu skilaúrræða lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sem eru á fallanda fæti.
Þá hefur Seðlabankinn það hlutverk að hafa eftirlit með öryggi og virkni grunninnviða íslensks fjármálakerfis, þ.e. kerfislega mikilvægra fjármálainnviða ásamt því að heildstætt stuðla að öryggi og virkni greiðslumiðlunar í landinu og við útlönd.
Gildi
Seðlabankinn hefur sett sér fjögur gildi til að fara eftir í starfsemi sinni; heilindi, áræðni, auðmýkt og fagmennsku. Gildin skulu vera leiðarvísir við störf og samskipti allra starfsmanna Seðlabankans. Hér á eftir fer útfærsla á merkingu gildanna.
Heilindi
Við erum heiðarleg og samkvæm í orðum okkar, athöfnum og ákvörðunum.
Áræðni
Við höfum dug og þor til að taka erfiðar ákvarðanir og fylgja þeim eftir.
Auðmýkt
Við rækjum hlutverk okkar af auðmýkt gagnvart viðfangsefnum Seðlabankans og því valdi sem honum er falið.
Fagmennska
Við leggjum áherslu á að viðhafa skilvirk, vönduð og góð vinnubrögð.
Stefnur og reglur
Seðlabankinn setur sér stefnur vegna lögformlegra markmiða bankans á sviðum peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirlits þ.e. málefnastefnur. Málefnastefnur eru samþykktar af viðeigandi fastanefnd og undirritaðar af seðlabankastjóra og hlutaðeigandi varaseðlabankastjóra.
Stefna í peningamálum er birt opinberlega á vefsíðu Seðlabankans og er heildarumgjörð um ákvarðanir í peningamálum og hvernig þeim er miðlað til almennings.
Opinber stefna um fjármálastöðugleika er birt á vef Stjórnarráðsins. Fjármálastöðugleikaráð mótar opinbera stefnu um fjármálastöðugleika sem Seðlabankanum ber að framfylgja, sbr. lög nr. 66/2014, um fjármálastöðugleikaráð.
Seðlabankinn setur stefnur sem taka til fjármálainnviða og hlutverks og framkvæmdar bankans á því sviði, þ.e. Stefna um fjármálainnviði og Stefna um yfirsýn með fjármálainnviðum.
Stefna í fjármálaeftirliti er birt opinberlega á vefsíðu Seðlabankans og tekur til þeirrar starfsemi sem fjármálaeftirlitinu er falið í lögum og lýsir megináherslum og framkvæmd Seðlabankans við eftirlit á fjármálamarkaði.
Tvær stefnur heyra undir Stefnu í fjármálaeftirliti, þ.e. Stefna um beitingu stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða og Stefna Seðlabanka Íslands um opinbera birtingu á niðurstöðum stjórnsýslumála.
Seðlabankinn setur sér einnig almennar stefnur sem snúa að innri starfsemi bankans til að treysta starfsemi Seðlabankans og styðja við lögbundið markmið bankans. Stefnurnar eru leiðarvísir fyrir starfsmenn bankans og lýsa tilgangi, markmiðum og megináherslum mikilvægra þátta í starfsemi hans.
Á heimasíðu Seðlabankans er að finna innri stefnur bankans sem birtar eru opinberlega.
Innra eftirlit
Starfsemi Seðlabankans fylgir margvísleg fjárhagslega áhætta og rekstraráhætta sem gætu gert bankanum erfitt um vik eða hindrað hann í að sinna hlutverki sínu með fullnægjandi hætti og ná lögboðnum markmiðum sínum. Því er mikilvægt að Seðlabankinn hafi yfir að ráða virku innra eftirlitskerfi til að greina, meta, stýra og vakta áhættu í starfsemi bankans sem gerir hann hæfari til að uppfylla markmið sín.
Seðlabankinn starfar eftir líkani þriggja lína þar sem úthlutun ábyrgðar á innra eftirliti er þrískipt. Í fyrstu línu eru viðskipta- og stoðeiningar og bera framkvæmdastjórar hverrar einingar ábyrgð á að viðhalda skilvirku innra eftirliti í starfsemi sinni. Í því felst að greina, meta umfang og stýra áhættu, þróa og innleiða eftirlitsaðgerðir og fylgjast með árangri þeirra. Áhættustýring er í annarri línu ásamt regluvörslu og persónuverndarfulltrúa. Hvor um sig er sjálfstæð eftirlitseining á sviði skrifstofu bankastjóra og fylgist með framkvæmd innra eftirlits hjá fyrstu línu. Í þriðju línu er innri endurskoðun sem framkvæmir óháð mat á virkni og gæði fyrstu og annarrar línu.