Seðlabankinn hefur eftirlit með að starfsemi þjónustuveitenda sýndareigna, sem telst til tilkynningarskyldra aðila, sé í samræmi við lög nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. X. kafla laganna.
Með þjónustuveitanda sýndareigna, sbr. 25. tölul. 3. gr. laganna, er átt við einstakling eða lögaðila sem:
- skiptir sýndareignum yfir í gjaldmiðil eða rafeyri,
- skiptir gjaldmiðli eða rafeyri yfir í sýndareignir,
- skiptir sýndareignum yfir í aðrar sýndareignir,
- varðveitir, framselur eða millifærir sýndareignir, fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila,
- veitir þjónustu í tengslum við útgáfu, útboð eða sölu sýndareigna,
- er þjónustuveitandi stafrænna veskja, eða
- fer með öðrum hætti með umráð yfir sýndareignum í atvinnuskyni., sbr. 8. tölul. 3. gr. laganna.
Með þjónustuveitanda stafrænna veskja er átt við einstakling eða lögaðila sem býður upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár, hvort sem er með hugbúnaði, kerfi eða annars konar miðli til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé, sbr. 20. tölul. 3. gr. laganna.
Þjónustuveitendur sýndareigna eru skráningarskyldir samkvæmt 35. gr. laganna, sbr. reglur nr. 151/2023 og nr. 152/2023.