Meginmál

Bein fjárfesting er birt tvisvar á ári eftir fyrirfram ákveðinni birtingaráætlun kl. 09:00 á birtingardegi. Í mars eru birtar endurmetnar tölur en í september fyrstu tölur ársins á undan ásamt endurmati fyrri ára.

Á sama tíma er einnig gefin út fréttatilkynning með helstu niðurstöðum. Seðlabankinn sendir sömu gögn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og evrópsku hagstofunnar. Gögnin eru aðgengileg á heimasíðum viðkomandi stofnana um 1-2 mánuðum eftir birtingu Seðlabankans.

Gögnin eru unnin á árlegri tíðni og eru aðgengileg  frá árinu 1998.

Nýjustu tölur eru bráðabirgðatölur.

Fyrirspurnir skal senda á netfangið adstod@sedlabanki.is

Hér má nálgast tímaraðaskjal fyrir beina fjárfestingu 2023

Bein fjárfesting

Fjárhæðir eru í milljónum króna (m.kr.)

Gögnum um beina fjárfestingu er safnað í því skyni að mæla viðskipti þjóðarbúsins við erlenda eignatengda aðila.  Seðlabankinn nýtir gögnin jafnframt í starfsemi sinni.

Hagskýrslugerð um beina fjárfestingu er í samræmi við staðal Efnahags- og framfarastofnuninnar (OECD) "OECD Benchmark Definition of Foreign Direct Investment 4th Edition". Staðallinn skilgreinir framsetningu, aðferðafræði, verðmat og hugtök.

Lagagrundvöllur

Grundvöllur upplýsingasöfnunar, uppgjörs og birtingar beinnar fjárfestingar á sér stoð í IX. kafla laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og í lögum um gjaldeyrismál nr. 70/2021. Þessi lög (og viðkomandi reglugerðir og reglur Seðlabanka Íslands nr. 861/2022 um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál) kveða á um upplýsingaskyldu innlendra aðila og trúnaðarskyldu starfsmanna Seðlabankans um gögnin sem safnað er til hagskýrslugerðar.

Bein fjárfesting

Bein fjárfesting mælir beina fjármunaeign og beint fjárfestingarflæði sem eru til komin vegna viðskipta á milli innlendra og erlendra aðila sem eru í beinu fjárfestingarsambandi.

Seðlabankinn safnar milliliðalaust gögnum frá innlendum aðilum sem teljast vera í beinu fjárfestingarsambandi við erlenda aðila. Auk þess er stuðst við gögn frá ríkisskattstjóra og ársreikningaskrá. Önnur gögn koma einnig til greina ef þau þykja áreiðanleg.

Endurskoðun gagna

Nýjustu tölur eru ávallt bráðabirgðatölur og geta tekið breytingum berist ný gögn frá skilaaðilum.

Hagtölurnar fylgja fastri endurskoðunaráætlun þar sem áður birtar tölur eru endurskoðaðar eftir því sem upplýsingar berast. Berist nýjar upplýsingar sem hafa þýðingarmikil áhrif á hagtölurnar er leitast við að uppfæra hagtölurnar sem fyrst. Áætlunin er í töflunni hér að neðan.

TímiMarsSeptember

Ársfjórðungar

Hámark 15 ársfjórðungar

Hámark 17 ársfjórðungar

Einnig er framkvæmd meiriháttar endurskoðun (e. benchmark revision) á 5 ára fresti.

Leiðbeiningar fyrir skilaaðila er að finna í gagnaskilakerfi Seðlabanka Íslands.

Bein fjárfesting

Þegar fjárfestir (e. Direct investor) í einu landi á 10% eða meira af hlutafé í fyrirtæki í öðru landi (e. Direct investment enterprise) kallast það bein fjárfesting (e. Foreign Direct Investment). Gert er ráð fyrir að þegar eignarhlutur er svo stór eða stærri sé það ætlun fjárfestis að hafa áhrif á stjórnun og stefnu félagsins og stofna til viðskiptasambands til langs tíma. Litið er á lán fjárfestis (framlag hans annað en eigið fé) eða fyrirtækja í hans eigu sem viðbótarfjárfestingu hans í viðkomandi fyrirtæki.

Í birtingu á hagtölum beinnar fjárfestingar er farið eftir fjárfestingarstefnuaðferð (e. Directional principle) og samkvæmt þeirri aðferðafræði er öfug fjárfesting á milli tengdra aðila undanskilin auk þess sem lánaviðskiptin eru sýnd nettó, þ.e. kröfur á milli móður- og dótturfélags eru nettuð út. Sértæk félög eru undanskilin í fjárfestingarstefnuframsetningu hagtalna.

Bein fjárfesting í hagtölum greiðslujafnaðar sem og í erlendri stöðu þjóðarbúsins er sett fram eftir svokallaðri eigna- og skuldaaðferð (e. asset and liability principle) en hún felur í sér að eigna- og skuldaliðir eru á vergum grunni (kröfur milli móður- og dótturfélags ekki nettaðar hvor á móti annarri). Sem dæmi má nefna að þessi framsetning felur í sér að lánaskuld innlends fjárfestis við erlent félag í hans eigu er sett fram í skuldahlið erlendrar stöðu þjóðarbúsins en ekki nettuð á móti lánakröfum fjárfestisins á erlenda félagið á eignahlið. Sértæk félög teljast með í beinni fjárfestingu samkvæmt eigna- og skuldaaðferð.

Lán milli fjárfestis og fyrirtækja, sem eru tengd honum í beinu fjárfestingasambandi, teljast ekki með beinni fjárfestingu ef báðir aðilar eru innlánsstofnun, verðbréfasjóður eða annað fjármálafyrirtæki utan tryggingafélaga og lífeyrissjóða. Í slíkum tilfellum er lánið flokkað undir aðra fjárfestingu.

Viðskipti með fasteignir flokkast undir beina fjárfestingu. Fjárfesting í fasteignum telst ekki til fjármálagerninga og eru sérstakar að því leyti. Viðskipti með fasteignir geta verið með einstaka fasteign en einnig sem fasteignafélög eða eignarhaldsfélög.

Viðskipti tengd beinni fjárfestingu

Viðskipti tengd beinni fjárfestingu eru skilgreind sem gjörningur þar sem aðilar skiptast á verðmætum í formi fjármálalegra eigna og skulda með sameiginlegri ákvörðun. Viðskipti sem fram fara með beinni fjárfestingu eru aðgreind eftir því hvort þau heyra undir eigið fé eða lán.

Viðskipti með fasteignir flokkast undir beina fjárfestingu. Fjárfesting í einstökum fasteignum telst til viðskipta með eigið fé. Viðskipti með fasteignir geta verið með einstaka fasteign en einnig farið fram í gegnum fasteignafélög eða eignarhaldsfélög.

Gert er ráð fyrir að með beinu fjárfestingunni sé það ætlun beins fjárfestis að hafa áhrif á stjórnun og stefnu beina fjárfestingarfélagsins og stofna til viðskiptasambands til langs tíma. Litið er á lán fjárfestis (framlag hans annað en eigið fé) eða fyrirtækja í hans eigu sem viðbótarfjárfestingu hans í viðkomandi fyrirtæki.

Hlutafjáreign og önnur verðbréfaeign innlends aðila í erlendum aðila og erlends aðila í innlendum flokkast sem verðbréfafjárfesting (minna en 10% eignarhlutur) sé ekki um beint fjárfestingarsamband að ræða á milli þeirra. Fjárfesting í verðbréfum er oftast hugsuð til skemmri tíma og ólíkt beinni fjárfestingu er tilgangur fjárfestingarinnar ekki að hafa áhrif á stjórn eða stefnu fyrirtækis.

Sértæk félög

Svokölluð sértæk félög (e. Special purpose entities) teljast með í beinni fjárfestingu samkvæmt eigna- og skuldaaðferð en eru undanskilin í hagtölum samkvæmt fjárfestingarstefnuaðferð (sjá skilgreiningar hér að neðan). Sértæk félög eru félög sem oft eru stofnuð í skattalegum tilgangi og hafa litla sem enga eiginlega starfsemi. Nokkur slík félög eru skráð hérlendis en eru að fullu í eigu erlendra aðila og eiga sjálf eignarhlut eða lánakröfur á tengd félög erlendis en engar innlendar eignir. Í raun eru félögin einungis skeljar utan um fjármuni sem flæða í gegnum Ísland og hafa mjög takmörkuð efnahagsleg áhrif. Sértæk félög eru meðtalin í hagtölum greiðslujafnaðar og erlendri stöðu þjóðarbúsins frá og með árinu 2013 en ekki eru til áreiðanlegar upplýsingar um efnahag þeirra fyrir þann tíma.

Skilgreiningar í beinni fjárfestingu

Beint fjárfestingarsamband
Beinn fjárfestir, beint fjárfestingarfyrirtæki og önnur eignatengd félög teljast vera í beinu fjárfestingarsambandi sín á milli.

Önnur eignartengd félög (e. Fellow enterprises)
Aðilar sem eru hvorki undir yfirráðum né hafa áhrif hvor á annan en eru þó báðir undir yfirráðum eða áhrifum sama beina fjárfestis.

Endanlegur fjárfestir (e. Ultimate controlling parent)
Það er aðili sem er efstur í eignarhaldskeðju þar sem yfirráðum yfir félögum er viðhaldið í gegnum beint eða óbeint meirihlutaeignarhald.

Yfirráð
Félag sem fer samanlagt með 50% eða meira af atkvæðamagni í öðru félagi gegnum beinan eða óbeinan eignarhlut telst fara með yfirráð yfir félaginu.

Áhrif
Félag sem fer samanlagt með 10-50% af atkvæðamagni í öðru félagi í gegnum beinan eða óbeinan eignarhlut telst hafa áhrif á félagið.

Beinn eignarhlutur
Eignarhlutur í öðru félagi.

Óbeinn eignarhlutur
Eignarhlutur í félagi í gegnum annað félag.

Bein fjármunaeign
Staða fjármálalegra eigna og skulda þar sem um beint fjárfestingarsamband er að ræða.

Beint fjárfestingarflæði
Beint fjárfestingarflæði mælir hrein viðskipti inn- og erlendra aðila með fjármálalegar eignir og skuldir þar sem um beint fjárfestingarsamband er að ræða.

Öfug fjárfesting
Þessi tegund sambands nær yfir stöðu og viðskipti beinna fjárfestingarfyrirtækja (tengdra félaga) með eigið fé (undir 10%) eða lán til beina fjárfestisins.

Lán milli tengdra aðila
Hér er um að ræða lán milli aðila sem eru hvorki undir yfirráðum eða hafa áhrif hvor á annan en eru þó báðir undir yfirráðum eða áhrifum sama beina fjárfestis.

Eðli beinnar fjárfestingar

Viðskipti í beinni fjárfestingu eru aðgreind eftir því hvort þau heyra undir eigið fé eða lán.

Eigið fé
Viðskipti með eigið fé er í formi hlutafjár og endurfjárfests hagnaðar.

  • Hlutabréfaviðskipti: Hlutabréf er ávísun á tiltekinn eignarhlut hluthafa í fyrirtæki og á eigandi þess rétt á hlut í bókfærðu virði fyrirtækisins og árlegum hagnaði þess.

  • Endurfjárfesting: Endurfjárfestur hagnaður er reiknuð stærð en til hans telst sá hluti hreins hagnaðar (að undanskildum gengis- og verðbreytingum) sem ekki er greiddur hluthöfum í formi arðgreiðslna. Endurfjárfesting endurspeglar þannig breytingu á virði eiginfjár milli tveggja tímabila.

Lánaviðskipti

  • Lán (e. Loans) eru fjármálaeignir sem verða til þegar lánveitandi lánar fé beint til lántaka. Undir lánaviðskipti heyra lang- og skammtímakröfur og skuldir.

  • Skuldaskjöl (e. Debt security) eru viðskiptabréf sem standa til sönnunar um skuld. Meðal þeirra teljast víxlar, skuldabréf, viðskiptabréf, innstæðubréf, skuldaviðurkenningar, eignavarin verðbréf, peningabréf og svipaðir gerningar sem átt eru viðskipti með á fjármálamörkuðum.

  • Innstæður (e. Deposits) eru staðlaðir, óframseljanlegir samningar sem innlánsstofnanir bjóða. Binditími innstæðna getur verið mismunandi eftir samningum. Innstæður fela jafnan í sér ábyrgð skuldara á að skila höfuðstólnum aftur til fjárfestis.

  • Viðskiptakröfur/skuldir (e. Trade credit) eru fjárkröfur sem stafa af því að þeir sem bjóða vöru og þjónustu veita viðskiptavinum sínum lengri greiðslufrest eða fá fyrirframgreiðslur (e. Advances) vegna vöru eða þjónustu. Viðskiptakröfur og fyrirframgreiðslur stafa af því að greiðsla fyrir vörur eða þjónustu fer ekki fram á sama tíma og vörur skipta um eigendur eða þjónusta er veitt.

  • Flokkurinn annað ót.a. (e. Accounts receivable/payable) tekur til annarra eigna eða skulda en þeirra sem nefndar eru hér að framan. Þar undir geta fallið skuldir vegna skatta, verðbréfaviðskipta, launa eða arðs.

Innlendur aðili / Erlendur aðili

Innlendur aðili merkir sérhvern einstakling sem hefur lögheimili á Íslandi og lögaðila sem skráður er til heimilis á Íslandi, án tillits til ríkisfangs. Undanþegnir búsetuskilyrðum eru námsmenn og starfsmenn sendiráða. Þannig teljast íslenskir námsmenn og skyldulið þeirra sem búa erlendis vera innlendir aðilar og erlendir sendiráðsstarfsmenn teljast til erlendra aðila. Erlendur aðili merkir alla aðra aðila en innlenda.

Viðburðir framundan

Sjá allt
bein fjárfesting
19. september
9:00
Uppfærslutíðni: Árleg - 2024
bein fjárfesting
20. mars
9:00
Uppfærslutíðni: Árleg - 2024 uppfærsla
Hagtölur
TitillTíðniNýjastTímabilNæstFlokkurGagnabanki
VerðbréfafjárfestingMánaðarleg31. marsFebrúar 202529. aprílGreiðslujöfnuður við útlönd
Staða markaðsverðbréfaMánaðarleg31. marsFebrúar 202530. aprílMarkaðir
Verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðirMánaðarleg27. marsFebrúar 202528. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Önnur fjármálafyrirtækiMánaðarleg27. marsFebrúar 202529. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Lánasjóðir ríkisinsMánaðarleg27. marsFebrúar 202529. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
InnlánsstofnanirMánaðarleg25. marsFebrúar 202525. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Útboð verðbréfaMánaðarleg21. marsFebrúar 202525. aprílMarkaðir
Bein fjárfestingÁrleg20. mars2023 uppfærsla19. septemberGreiðslujöfnuður við útlönd
GreiðslumiðlunMánaðarleg17. marsFebrúar 202516. aprílMarkaðir
TryggingafélögMánaðarleg17. marsJanúar 202523. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
GjaldeyrisforðiMánaðarleg14. marsFebrúar 202515. aprílGreiðslujöfnuður við útlönd
Efnahagur Seðlabanka ÍslandsMánaðarleg7. marsFebrúar 20257. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
GjaldeyrismarkaðurMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
KrónumarkaðurMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
RaungengiMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
LífeyrissjóðirMánaðarleg6. marsJanúar 20254. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Greiðslujöfnuður við útlöndÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Erlendar skuldirÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Erlend staða þjóðarbúsinsÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Fjármálareikningar fjármálafyrirtækjaÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfjórðungur 20246. júníEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja