Meginmál

Erlend staða þjóð­ar­búsins er birt ársfjórð­ungs­lega, um tveimur mánuðum eftir lok ársfjórð­ungs, eftir fyrir­fram ákveð­inni birtingaráætlun kl. 09:00 á birtingardegi.

Á sama tíma er einnig gefin út fréttatilkynning með helstu niðurstöðum. Seðlabankinn sendir sömu gögn til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og evrópsku hagstofunnar. Gögnin eru aðgengileg á heimasíðum viðkomandi stofnana um 1-2 mánuðum eftir birtingu Seðlabankans.

Gögnin eru unnin á ársfjórðungslegri tíðni og eru aðgengileg  frá árinu 1995.

Nýjustu tölur eru bráðabirgðatölur.

Fyrirspurnir skal senda á netfangið adstod@sedlabanki.is

Hér má nálgast tímaraðaskjal fyrir erlenda stöðu þjóðarbúsins á 4.ársfjórðungi 2024

Erlend staða þjóðarbúsins

Fjárhæðir eru í milljónum króna (m.kr.)

Gögnum um erlenda stöðu þjóðarbúsins er safnað í því skyni að mæla verðgildi fjáreigna innlendra aðila (kröfur á erlenda aðila) og skuldir þeirra við erlenda aðila. Seðlabankinn nýtir gögnin jafnframt í starfsemi sinni.

Hagskýrslugerð um erlenda stöðu þjóðarbúsins er í samræmi við staðal Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) „Balance of Payments and International Investment Position Manual, 6th edition“ (BPM6). Staðallinn skilgreinir framsetningu, aðferðafræði, verðmat og hugtök.

Lagagrundvöllur

Grundvöllur upplýsingasöfnunar, uppgjörs og birtingar beinnar fjárfestingar á sér stoð í IX. kafla laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og í lögum um gjaldeyrismál nr. 70/2021. Þessi lög (og viðkomandi reglugerðir og reglur Seðlabanka Íslands nr. 861/2022 um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál) kveða á um upplýsingaskyldu innlendra aðila og trúnaðarskyldu starfsmanna Seðlabankans um gögnin sem safnað er til hagskýrslugerðar.

Erlend staða þjóðarbúsins

Erlend staða þjóðarbúsins sýnir, við lok hvers ársfjórðungs, verðgildi erlendra fjáreigna innlendra aðila og skuldir þeirra við erlenda aðila. Munurinn á eignum og skuldum er hrein staða þjóð­ar­búsins og táknar hún þá annað hvort hreina eign eða hreina skuld við erlenda aðila.

Upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins eru fengnar frá viðskiptabönkum, öðrum fjármálafyrirtækjum og lánastofnunum, Seðlabankanum og stærri fyrirtækjum. Auk þess er stuðst við gögn frá ríkisskattstjóra og ársreikningaskrá.

Endurskoðun gagna

Nýjustu tölur eru ávallt bráðabirgðatölur og geta tekið breytingum berist ný gögn frá skilaaðilum.

Hagtölurnar fylgja fastri endurskoðunaráætlun þar sem áður birtar tölur eru endurskoðaðar eftir því sem upplýsingar berast. Berist nýjar upplýsingar sem hafa þýðingarmikil áhrif á hagtölurnar er leitast við að uppfæra hagtölurnar sem fyrst. Áætlunin er í töflunni hér að neðan.

TímiMarsJúníSeptemberDesember

Ársfjórðungar

Hámark 15 ársfjórðungar

Hámark 4 ársfjórðungar

Hámark 17 ársfjórðungar

Hámark 6 ársfjórðungar

Einnig er framkvæmd meiriháttar endurskoðun (e. benchmark revision) á 5 ára fresti.

Leiðbeiningar fyrir skilaaðila er að finna í gagnaskilakerfi Seðlabanka Íslands.

Millibankalán

Millibankalán og önnur viðskipti milli inn- og erlendra innlánsstofnana falla undir innstæður.

Viðskiptakröfur/skuldir

Viðskiptakröfur/skuldir (e. Trade credit) eru fjárkröfur sem stafa af því að þeir sem bjóða vöru og þjónustu veita viðskiptavinum sínum lengri greiðslufrest eða fá fyrirframgreiðslur (e. Advances) vegna vöru eða þjónustu. Viðskiptakröfur og fyrirframgreiðslur stafa af því að greiðsla fyrir vörur eða þjónustu fer ekki fram á sama tíma og vörur skipta um eigendur eða þjónusta er veitt.

Erlend staða þjóðarbúsins

Erlend staða þjóðarbúsins (e. International Investment Position) sýnir, við lok hvers ársfjórðungs, verðgildi fjáreigna innlendra aðila og skuldir þeirra við erlenda aðila. Munurinn á eignum og skuldum er hrein staða þjóðarbúsins og táknar hún þá annað hvort hreina eign eða hreina skuld við erlenda aðila.

Markaðsverð er undirstaða verðmats. Nafnvirðismat er hins vegar notað fyrir stöðustæðir í óframseljanlegum viðskiptagerningum svo sem útlánum, innstæðum og öðrum viðskiptakröfum/viðskiptaskuldum. Eiginfjáreign í beinni fjárfestingu er metin á bókfærðu virði eiginfjár (e. own funds at book value) félags sem fjárfest er í (e. direct investment enterprise).

Fjármagnsjöfnuður og erlend staða þjóðarbúsins eru tengd á þann hátt að viðskiptin sem færð eru í fjármagnsjöfnuð útskýra að hluta breytingu á stöðu erlendra eigna og skulda milli tímabila. Að frátöldum viðskiptum í fjármagnsjöfnuði getur virði erlendra eigna eða skulda breyst vegna gengis- og verðbreytinga.

Bein fjárfesting

Þegar fjárfestir (e. Direct investor) í einu landi á 10% eða meira af hlutafé í fyrirtæki í öðru landi (e. Direct investment enterprise) kallast það bein fjárfesting (e. Foreign Direct Investment). Gert er ráð fyrir að þegar eignarhlutur er svo stór eða stærri sé það ætlun fjárfestis að hafa áhrif á stjórnun og stefnu félagsins og stofna til viðskiptasambands til langs tíma. Litið er á lán fjárfestis (framlag hans annað en eigið fé) eða fyrirtækja í hans eigu sem viðbótarfjárfestingu hans í viðkomandi fyrirtæki.

Í birtingu á hagtölum beinnar fjárfestingar er farið eftir fjárfestingarstefnuaðferð (e. Directional principle) og samkvæmt þeirri aðferðafræði er öfug fjárfesting á milli tengdra aðila undanskilin auk þess sem lánaviðskiptin eru sýnd nettó, þ.e. kröfur á milli móður- og dótturfélags eru nettuð út. Sértæk félög eru undanskilin í fjárfestingarstefnuframsetningu hagtalna.

Bein fjárfesting í hagtölum greiðslujafnaðar sem og í erlendri stöðu þjóðarbúsins er sett fram eftir svokallaðri eigna- og skuldaaðferð (e. asset and liability principle) en hún felur í sér að eigna- og skuldaliðir eru á vergum grunni (kröfur milli móður- og dótturfélags ekki nettaðar hvor á móti annarri). Sem dæmi má nefna að þessi framsetning felur í sér að lánaskuld innlends fjárfestis við erlent félag í hans eigu er sett fram í skuldahlið erlendrar stöðu þjóðarbúsins en ekki nettuð á móti lánakröfum fjárfestisins á erlenda félagið á eignahlið. Sértæk félög teljast með í beinni fjárfestingu samkvæmt eigna- og skuldaaðferð.

Lán milli fjárfestis og fyrirtækja, sem eru tengd honum í beinu fjárfestingasambandi, teljast ekki með beinni fjárfestingu ef báðir aðilar eru innlánsstofnun, verðbréfasjóður eða annað fjármálafyrirtæki utan tryggingafélaga og lífeyrissjóða. Í slíkum tilfellum er lánið flokkað undir aðra fjárfestingu.

Viðskipti með fasteignir flokkast undir beina fjárfestingu. Fjárfesting í fasteignum telst ekki til fjármálagerninga og eru sérstakar að því leyti. Viðskipti með fasteignir geta verið með einstaka fasteign en einnig sem fasteignafélög eða eignarhaldsfélög.

Markaðsskuldabréf

Skuldabréf eru framseljanlegir fjármálagerningar sem gilda sem sönnun um skuld og boðin eru til kaups með útboði þar sem öll helstu einkenni bréfa í hverjum flokki eru hin sömu, þar á meðal nafn útgefanda (skuldara), fyrsti vaxtadagur og endurgreiðslu-, vaxta og uppsagnarákvæði eftir því sem við á. Markaðsskuldabréf eru gerð til að ganga kaupum og sölu á markaði ýmist í kauphöll eða beint yfir borð milli aðila (e. Over The Counter).

Tegund skuldabréfa í hagtölum Seðlabankans:

Verðtryggð markaðsskuldabréf
Höfuðstóll breytist í samræmi við ákv. vísitölu og yfirleitt gefin út í íslenskum krónum. Hér undir falla t.d. húsbréf, húsnæðisbréf og íbúðabréf, verðtryggð ríkisbréf (RIKS) og verðtryggð skuldabréf gefin út af atvinnufyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum og sveitarfélögum.

Önnur markaðsskuldabréf og víxlar
Höfuðstóll er ekki tengdur neinni vísitölu - er óverðtryggður. Þessi bréf geta verið gefin út í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Hér undir falla t.d. óverðtryggð ríkisbréf (RIKB), ríkisvíxlar (RIKV) og skuldabréf gefin út af atvinnufyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum, sveitarfélögum og erlendum aðilum.

Hlutabréf og hluteildarskírteini

Hlutabréf
Ávísun á ákveðinn eignarhlut hluthafa í fyrirtæki sem rekið er sem hlutafélag. Hlutafélagið gefur út sérstakt skjal (hlutabréf) til sönnunar því að eigandi þess (hluthafi) eigi ákveðinn hlut í eignum fyrirtækisins og árlegum hagnaði þess. Hlutabréf eru oftast viðskiptabréf, þ.e. þau geta gengið kaupum og sölum eins og tilgreint er í samþykktum félagsins, ýmist í kauphöll eða beint yfir borð milli aðila. Við slit félags koma hlutabréf til greiðslu eftir að allar aðrar skuldir viðkomandi félags hafa verið greiddar.

Þegar fjárfestir á minna en 10% í félagi telst það til verðbréfaeignar. Sé hluturinn meiri telst hann til beinnar fjárfestingar og flokkast sem hlutur í hlutdeildarfyrirtæki eða tengdu fyrirtæki.

Hlutdeildarfyrirtæki
Fyrirtæki, þar sem beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 10-50% af eigin fé eða atkvæðisrétti.

Tengt fyrirtæki
Dótturfyrirtæki fyrirtækis, móðurfyrirtæki þess eða systurfyrirtæki (þ.e. fyrirtæki undir sama móðurfyrirtæki). Skilyrði er að eignarhlutur sé > 50%.

Hlutdeildarskírteini
Fjármálagerningar sem staðfesta tilkall allra þeirra sem eiga hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Eigendur hlutdeildarskírteina eiga rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar, í sama hlutfalli og nemur hlutdeild þeirra í heildarfjölda útgefinna hlutdeildarskírteina.

Eigð fé
Eigið fé er allur eignahlutur eigenda í fyrirtæki. Eigið fé jafngildir mismun eigna og skulda.

Afleiður og valréttir starfsmanna

Afleiðusamningur er fjármálagerningur þar sem verðmæti er háð verðþróun á annarri undirliggjandi eign. Afleiður eru auðkenndar sérstaklega frá öðrum
flokkum vegna þess að þær tengjast frekar áhættuyfirfærslu (s.s. vaxtaáhættu, gengisáhættu, hlutafjár- og hrávöruverðsáhættu o.s.frv.) en framboði á fjármunum eða öðru fjármagni. Virði afleiða er aðgreint frá verðgildi undirliggjandi þátta sem þær tengjast. Afleiður eru flokkaðar í eftirfarandi undirflokka: valréttir, framvirkir samningar og valréttir starfsmanna.

Valréttir
Valréttur færir kaupandanum rétt til að kaupa eða selja undirliggjandi eign á samningsverði (e. Strike price) fyrir ákveðna dagsetningu.

Framvirkir samningar
Framvirkir samningar eru samningar þar sem samningsaðilar samþykkja að eiga viðskipt með ákveðna undirliggjandi eign á fyrirfram ákveðnu verði, á fyrirfram ákveðinni dagsetningu.

valréttir starfsmanna
Undir afleiður falla einnig valréttir starfsmanna á hlutabréfum í fyrirtæki sem býðst starfsmönnum þess sem hluti af launakjörum þeirra. Ef leyfilegt er að eiga viðskipti með hlutabréfavalrétt starfsmanna á fjármálamörkuðum án hafta er þau flokkuð sem afleiða.

Annað hlutafé

Annað hlutafé (e. Other equity) er hlutafé sem er ekki í formi verðbréfa (e. Security). Það getur innhaldið hlutafé í útibúum (e. Branches), sjóðum (e. Trusts) og samlagshlutafélögum (e. Limited partnership). Eign í mörgum alþjóðastofnunum er ekki í formi hlutabréfs (e. Shares) og er því flokkuð sem annað hlutafé.

Gull og SDR

Gull
Í eigu eða vörslu peningayfirvalda sem er hluti af gjaldeyrisforða. Til að geta talist til gjaldeyrisforða verður gullið að vera tiltækt án tafa og kvaða.

Sérstök dráttarréttindi
Réttindi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn úthlutar til að styrkja gjaldeyrisforða aðildarlanda hans. Sérstökum dráttarréttindum er úthlutað í hlutfalli við kvóta viðkomandi lands hjá sjóðnum. Kvóti hvers lands er ákveðinn út frá hlutdeild landsins í heimsviðskiptum. Dráttarréttindin tákna að eigandi þeirra á fullan og óskilyrtan rétt á gjaldeyrisláni eða öðrum gjaldeyriseignum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Aðildarríki geta selt hvort öðru kvótann sinn. Á móti eignfærðum kvóta bókast skuld sem kallast mótvirði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Seðlar og innstæður

Seðlar og innstæður samanstanda af seðlum og mynt í umferð ásamt innstæðum. Innstæður eru staðlaðir, óframseljanlegir samningar sem innlánsstofnanir bjóða. Binditími innstæðna getur verið mismunandi eftir samningum. Innstæður fela jafnan í sér ábyrgð skuldara á að skila höfuðstólnum aftur til fjárfestis. Innstæður geta verið í seðlabönkum eða innlánsstofnunum.

Innlán

Innlán eru óframseljanlegir samningar milli innlánsstofnunar og annars aðila þar sem fjármunir eru lagðir inn á reikning í innlánsstofnun til ávöxtunar til lengri eða skemmri tíma. Innlán geta verið smásöluinnlán eða heildsöluinnlán. Heildsöluinnlán eru innlán þar sem samið hefur verið sérstaklega um kjör og tímalengd viðkomandi innlána annaðhvort beint við viðkomandi innlánsstofnun eða fyrir milligöngu miðlara á peningamarkaði. Slík innlán standa almennum sparifjáreigendum almennt ekki til boða og skilmálar þeirra eru ekki staðlaðir. Smásöluinnlán eru innlán á stöðluðum reikningum með auglýstum kjörum og tímalengd.

Lán

Lán eru óframseljanlegir fjármálagerningar þar sem lánveitandi lánar fé beint til lántaka og eru með föstum útreiknanlegum greiðslum. Lán eru almennt óframseljanleg en ef lán verða framseljanleg frá einum eiganda til annars þá er flokkun þeirra breytt í markaðsskuldabréf. Til að lán séu endurflokkuð þurfa að vera til staðar viðskipti á markaði.

Tegund lána í hagtölum Seðlabankans:

Greiddar óinnleystar ábyrgðir
Lán sem fjármálafyrirtæki hafa leyst til sín en eiga eftir að krefja ábyrgðarmenn um greiðslu á.

Yfirdráttarlán
Yfirdráttur á hlaupareikningi. Einnig falla hér undir skuldir vegna greiðslukorta.

Víxill
Skrifleg áskorun í ákveðnu formi frá útgefanda, til annars manns, greiðanda, um að hann greiði peninga til þriðja manns. Víxlar geta verið víxlar á hendur öðrum manni eða eigin víxlar. Með eigin víxli tekur útgefandinn sjálfur að sér að greiða víxilfjárhæð á gjalddaga. Víxlar eru jafnan óverðtryggðir og yfirleitt notaðir ef um skammtíma fjármögnun er að ræða, þ.e. 4 mánuðir eða skemur. Víxlar eru yfirleitt ekki gefnir út til lengri tíma en eins árs.

Verðtryggð lán
Skuldabréf þar sem höfuðstóll breytist í samræmi við ákveðna vísitölu sem tryggir að skuldabréfið haldi verðgildi sínu. Skuldabréf er skrifleg yfirlýsing útgefanda (lántaka) um skyldu hans til að greiða öðrum aðila (lánveitanda) ákveðna upphæð ásamt vöxtum yfir tiltekinn tíma og endurgreiða lánið á gjalddaga. Verðtryggð skuldabréf samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár (nr. 218/2023) miðast við vísitölu neysluverðs.

Önnur lán og kröfur
Óverðtryggð skuldabréf og kröfur aðrar en viðskiptakröfur. Krafa er lögvarin heimild eins aðila til að krefjast greiðslu af öðrum aðila þ.e. skuldara. Hér undir falla einnig óverðtryggð millibankalán og kröfur á hendur dótturfélögum.

Eignaleigusamningar
Samheiti yfir fjármögnunarleigu og kaupleigu. Þeir eru ólíkir beinum lánum að því leyti að þeir byggja á því að lánveitandinn kaupir lausafé eða fasteign sem viðskiptavinurinn óskar og leigir honum til fyrirfram umsamins tíma. Þannig er eignarrétturinn helsta trygging lánveitandans.

Niðurfærslur
Varúðarfærslur lánveitanda vegna endurheimtu lána. Niðurfærslur eru gerðar vegna mats á væntu útlánatapi.

Ónotaðar lánalínur eru ekki flokkaðar sem lán þar sem þær eru ekki skuldir heldur skuldbindingar.

Daglán

Lán sem mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann geta sótt um að eigin frumkvæði að því gefnu að þeir geti lagt fram veð sem Seðlabankinn metur hæf. Daglán eru lán til næsta viðskiptadags.

Lán gegn veði

Seðlabankinn getur veitt lán bæði til skemmri og lengri tíma en öll lán sem Seðlabankinn veitir eru veðlán enda má bankinn ekki lána nema gegn tryggingum sem bankinn metur hæfar. Vextir veðlána til 7 daga eru í miðju vaxtagangsins.

Lífeyris- og skaðatryggingarsjóðir

Helstu lífeyris- og skaðabótasjóðir sem hafa áhrif í hagtölum Seðlabankans eru lífeyrisréttindasjóðir og skaðatryggingarsjóðir . Aðrir flokkar eru líftryggingar og greiðsluréttindi, önnur lífeyrisréttindi, kröfur lífeyrissjóða á sjóðstjóra og staðlaðar ábyrgðir.

Lífeyrisréttindasjóðir
Eignir sjóðfélaga í lífeyrissjóðum eru ekki endilega jafnar eignum lífeyrissjóðanna því um mismunandi gerðir sjóða er að ræða. Sjóðir geta annað hvort verið réttindatengdir eða iðgjaldatengdir. Réttindatengdir sjóðir geta verið tvenns konar, fjármagnaðir eða ófjármagnaðir. Eign í réttindatengdum sjóðum er reiknuð út frá tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Sé réttindatengdur sjóður fjármagnaður má ætla að eign sjóðsfélaga (tryggingafræðileg staða þeirra) á hverjum tíma sé jöfn markaðsvirði eigna í sjóðnum. Hins vegar þegar um ófjármagnaðan réttindatengdan sjóð er að ræða geta eignir í sjóðnum verið minni en tryggingafræðileg staða hans en það er á ábyrgð launagreiðenda að brúa bilið sem myndast á milli. Iðgjaldatengdir sjóðir eru alltaf fjármagnaðir og því er eign sjóðfélaga á hverjum tíma jöfn markaðsvirði eigna í sjóðnum.

Skaðatryggingarsjóðir
Skaðatryggingarsjóðum má skipta í tvennt. Annars vegar sjóðir fyrir greidd en ótekjufærð iðgjöld (fyrirframgreidd iðgjöld) og hins vegar sjóðir fyrir útistandandi tryggingakröfur sem tryggingafélögin búast við að borga vegna orðinna en óuppgerðra atburða. Sjóðirnir eru skuldir tryggingafélaga en eign tryggingartaka. Áhrif þeirra á hagtölurnar eru sambærileg við áhrif lífeyrissjóðanna sem lýst er hér að framan.

Aðrar eignir/skuldir

Flokkurinn annað aðrar eignir/skuldir tekur til annarra eigna eða skulda en þeirra sem nefndar eru hér að framan. Þar undir geta fallið skuldir vegna skatta,
verðbréfaviðskipta, launa eða arðs.

Gjaldeyrisforði

Gjaldeyrisforði eru þær erlendu eignir sem eru ætíð aðgengilegar yfirvaldi á sviði peningamála og undir stjórn þeirra. Gjaldeyrisforði verður að vera eign í erlendum gjaldmiðli, kröfur gagnvart erlendum aðilum og eignir sem eru raunverulega til. Hugsanlegar eignir eru undanskildar.

Innlendur aðili / Erlendur aðili

Innlendur aðili merkir sérhvern einstakling sem hefur lögheimili á Íslandi og lögaðila sem skráður er til heimilis á Íslandi, án tillits til ríkisfangs. Undanþegnir búsetuskilyrðum eru námsmenn og starfsmenn sendiráða. Þannig teljast íslenskir námsmenn og skyldulið þeirra sem búa erlendis vera innlendir aðilar og erlendir sendiráðsstarfsmenn teljast til erlendra aðila. Erlendur aðili merkir alla aðra aðila en innlenda.

Eftirstöðvatími

Eftirstöðvatími miðast við upphaflegan eftirstöðvatíma. Langtímalán og -kröfur haldast því áfram langtímalán/-kröfur þó svo að rauneftirstöðvatími sé orðinn eitt ár eða styttri. Tímalengdir upprunalegs eftirstöðvatíma eru tvær:
Skammtíma: ≤ 1 ár
Langtíma: > 1 ár.

Viðburðir framundan

Sjá allt
Engir viðburðir fundust m.v. uppgefin leitarskilyrði og eða dagsetningar.
Hagtölur
TitillTíðniNýjastTímabilNæstFlokkurGagnabanki
VerðbréfafjárfestingMánaðarleg31. marsFebrúar 202529. aprílGreiðslujöfnuður við útlönd
Staða markaðsverðbréfaMánaðarleg31. marsFebrúar 202530. aprílMarkaðir
Verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðirMánaðarleg27. marsFebrúar 202528. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Önnur fjármálafyrirtækiMánaðarleg27. marsFebrúar 202529. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Lánasjóðir ríkisinsMánaðarleg27. marsFebrúar 202529. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
InnlánsstofnanirMánaðarleg25. marsFebrúar 202525. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Útboð verðbréfaMánaðarleg21. marsFebrúar 202525. aprílMarkaðir
Bein fjárfestingÁrleg20. mars2023 uppfærsla19. septemberGreiðslujöfnuður við útlönd
GreiðslumiðlunMánaðarleg17. marsFebrúar 202516. aprílMarkaðir
TryggingafélögMánaðarleg17. marsJanúar 202523. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
GjaldeyrisforðiMánaðarleg14. marsFebrúar 202515. aprílGreiðslujöfnuður við útlönd
Efnahagur Seðlabanka ÍslandsMánaðarleg7. marsFebrúar 20257. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
GjaldeyrismarkaðurMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
KrónumarkaðurMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
RaungengiMánaðarleg7. marsFebrúar 20258. aprílMarkaðir
LífeyrissjóðirMánaðarleg6. marsJanúar 20254. aprílEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja
Greiðslujöfnuður við útlöndÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Erlendar skuldirÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Erlend staða þjóðarbúsinsÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfj. 20245. júníGreiðslujöfnuður við útlönd
Fjármálareikningar fjármálafyrirtækjaÁrsfjórðungsleg6. mars4. ársfjórðungur 20246. júníEfnahagsreikningar fjármálafyrirtækja