Útgáfa og meðferð rafeyris
Um útgáfu og meðferð rafeyris gilda lög nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris. Með lögunum var innleidd tilskipun 2009/110/EB, um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim.
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, sbr. 28. gr. laganna.
Með rafeyri er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga nr. 140/2021, um greiðsluþjónustu, og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna.
Samkvæmt 3. gr. laganna er útgáfa rafeyris þeim einum heimil sem hafa leyfi til útgáfunnar. Með útgefanda rafeyris er átt við eftirfarandi aðila, sbr. 8. tölul. 4. gr. laganna:
- Rafeyrisfyrirtæki
- Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning
- Seðlabanka Evrópu (ECB) og seðlabanka ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála
- Stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld
Um rafeyrisfyrirtæki gilda einnig reglur nr. 322/2014 um tryggilega varðveislu fjármuna rafeyrisfyrirtækja.
Um umsókn um starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis og skilyrði þess fer samkvæmt III. kafla laganna. Rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi, auk útgáfu rafeyris:
- Veitingu greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu
- Lánveitingar í tengslum við greiðsluþjónustu sem um getur í d- og e-lið 22. tölul. 3. gr. og 14. tölul. 2. gr. laga um greiðsluþjónustu, að uppfylltum skilyrðum 4. mgr. 16. gr. þeirra laga
- Aðra starfsemi og stoðþjónustu er tengist útgáfu rafeyris eða veitingu greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið
- Rekstur greiðslukerfa samkvæmt skilgreiningu laga um greiðsluþjónustu
- Aðra starfsemi, nema því séu takmörk sett í lögunum eða öðrum lögum
Upplýsingagjöf vegna umsóknar um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki má finna á þjónustuvef Seðlabankans.
Greiðsluþjónusta
Með lögum nr. 114/2021, um greiðsluþjónustu, er innleidd önnur tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu, tilskipun (ESB) 2015/2366 (PSD2). Lögin gilda um alla þá sem hafa heimild til að veita greiðsluþjónustu auk ákvæða sem eiga við um greiðslustofnanir.
Skilgreining á greiðsluþjónustu:
- Þjónusta sem gerir kleift að leggja reiðufé inn á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
- Þjónusta sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
- Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærslur fjármuna á og af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda eða hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda:
- framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna
- framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
- framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
- Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
- framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
- framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
- framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
- Útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing greiðslna.
- Peningasending.
- Greiðsluvirkjun.
- Reikningsupplýsingaþjónusta.
Þeim einum er heimilt að veita greiðsluþjónustu sem hafa leyfi til þess samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu og eru þeir eftirtaldir:
- Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, þ.m.t. útibú þeirra, eins og þau eru skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef slík útibú eru á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem aðalskrifstofur þessara útibúa eru innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við 47. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og landslög.
- Rafeyrisfyrirtæki í samræmi við lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, þ.m.t. útibú þeirra í samræmi við 34. gr. þeirra laga ef slík útibú eru staðsett innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðalskrifstofur þeirra eru utan þess að því marki sem greiðsluþjónustan sem þessi útibú veita er í tengslum við útgáfu rafeyris.
- Póstgíróstofnun sem hefur rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu.
- Greiðslustofnun.
- Seðlabanki Evrópu og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála.
- Stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
- Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
- Lögaðili eða einstaklingur sem hefur fengið undanþágu skv. 35. gr.
Um umsókn um starfsleyfi greiðslustofnunar og skilyrði þess fer samkvæmt II. kafla laganna. Greiðslustofnun er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi, auk greiðsluþjónustu:
- rekstur nátengdrar stoðþjónustu, svo sem að tryggja framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisviðskipti, ráðstafanir til verndunar eigna og geymslu og vinnslu gagna,
- starfrækja greiðslukerfi,
- aðra starfsemi en greiðsluþjónustu í samræmi við aðra gildandi löggjöf.
Upplýsingagjöf vegna umsóknar um starfsleyfi sem greiðslustofnun má finna á þjónustuvef Seðlabankans.
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með framkvæmd greiðsluþjónustulaga að því er varðar eftirlitsskylda aðila, sbr. 102. gr. laganna.
Rísi ágreiningur um aðgang að greiðslureikningum skv. 37. gr. laga um greiðsluþjónustu eða annarra ákvæða laganna er unnt að senda kvörtun til Seðlabankans. Við úrlausn kvartana fylgir Seðlabankinn viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um meðferð kvartana.