Eitt af meginmarkmiðum Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu, öruggu og virku fjármálakerfi. Fjármálastöðugleiki ríkir þegar ekki er rof eða veruleg truflun á starfsemi fjármálakerfisins og það býr yfir nægum viðnámsþrótti til að þola áföll og ójafnvægi án þess að veruleg neikvæð áhrif verði í miðlun fjármagns, miðlun greiðslna og dreifingu áhættu. Heilbrigt fjármálakerfi er nauðsynleg forsenda stöðugleika, hagvaxtar og virkrar stefnu í peningamálum. Ársfjórðungslega er framkvæmd ítarleg úttekt á þjóðhagslegu umhverfi, fjármálamörkuðum og fjármálastofnunum. Tvisvar á ári eru niðurstöðurnar birtar í ritinu Fjármálastöðugleiki.
Beiting stjórntækja Seðlabankans til að stuðla að fjármálastöðugleika er ákveðin af fjármálastöðugleikanefnd.
Í ritinu Fjármálastöðugleika er tvisvar á ári birt yfirlit um styrkleika og veikleika fjármálakerfisins og um áhættu sem kerfinu kann að vera búin, bæði af þjóðhagslegum og rekstrarlegum toga. Í ritinu er greint frá því hvernig Seðlabankinn vinnur að verkefnum sem varða virkt og öruggt fjármálakerfi.
Þjóðhagsvarúð snýr að því að varðveita stöðugleika fjármálakerfisins í heild, með því að takmarka uppsöfnun kerfisáhættu og viðhalda og treysta viðnámsþrótt kerfisins gagnvart slíkri áhættu.
Árlega leggur Seðlabanki Íslands álagspróf fyrir kerfislega mikilvæga banka. Prófinu er ætlað að meta viðnámsþrótt þeirra gagnvart ímynduðu en hugsanlegu efnahagsáfalli.
Gjaldeyrisviðskipti á Íslandi eru frjáls nema annað leiði af lögum. Hið sama gildir um greiðslur og fjármagnshreyfingar milli landa. Þó er heimilt að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir alvarlega röskun á stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika.
Seðlabanki Íslands er lögum samkvæmt handhafi skilavalds yfir íslenskum fjármálafyrirtækjum. Í því felst heimild til að taka ákvarðanir um skilameðferð og beitingu skilaúrræða hjá fjármálafyrirtæki sem er á fallanda fæti, þ.e. getur ekki staðið við skuldbindingar sínar eða verulegar líkur eru á að það geti ekki staðið við þær.