Áhætta tengd umhverfismálum, s.s. loftslagsmálum, tengist með beinum hætti helstu markmiðum bankans um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og traust og öruggt fjármálakerfi. Ýmislegt bendir til þess að hækkun hitastigs á jörðinni geti haft áhrif á matvælaframleiðslu og verðlag. Loftslagsbreytingar og breytingar á vistkerfum geta mögulega haft áhrif á fjármálakerfið og hagkerfið í heild og viðmið og reglur er varða sjálfbærar fjárfestingar útheimta sérstaka starfsemi fjármálaeftirlits.
Seðlabankinn eins og aðrar opinberar stofnanir hefur sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum og hefur innleitt græn skref í rekstri og starfsemi bankans. Bankinn hefur einsett sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni um 40% frá árinu 2019 til ársins 2030.