Meginmál

Efnahagsmál lýsa því meðal annars hvernig við notum vinnuafl okkar og ýmsar auðlindir til þess að framleiða vörur og þjónustu. Framleiðsluna köllum við oft hagræn gæði. Efnahagsmál fjalla einnig um það hvernig þessum gæðum, það er afrakstri vinnunnar og auðlindanna, er skipt. Ýmis fyrirtæki og einkaaðilar sjá um stóran hluta framleiðslunnar og svo sinna opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, stórum hluta þjónustu sem telst til mikilvægra gæða, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntun. Þróun efnahagsmála hefur mikil áhrif á velferð íbúa í hverju landi.

Hvað er landsframleiðsla?

Landsframleiðsla í tilteknu landi er heildarverðmæti allrar vöru og þjónustu sem framleidd er til endanlegra nota innan landamæra þess. Hagvöxtur er breyting landsframleiðslunnar að raunvirði (þ.e. á föstu verðlagi), yfirleitt á milli ára. Samdráttur eða kreppa á sér jafnan stað þegar landsframleiðsla dregst saman milli ára, þ.e. þegar hagvöxtur er neikvæður. Landsframleiðsla er ekki einhlítur mælikvarði á velmegun þjóðar, m.a. þar sem ekki er tekið tillit til allrar framleiðslu, t.d. þeirrar sem á sér stað á heimilum landsmanna til einkanota. Ekki er heldur tekið tillit til þess hvort framleiðslan hafi neikvæð áhrif á umhverfið, hvernig tekjum er skipt meðal landsmanna né lífslíka. Almennt er þó sterk fylgni milli landsframleiðslunnar og annarra mælikvarða á velferð.

Hvað er framleiðsluspenna eða framleiðsluslaki?

Framleiðslugeta hagkerfisins er skilgreind sem það framleiðslustig sem samræmist fullri nýtingu allra framleiðsluþátta hagkerfisins, þ.e. fjármagnsstofns, vinnuafls og fyrirliggjandi tækniþekkingar. Til skamms tíma getur heildareftirspurn hagkerfisins valdið því að framleiðslustig hagkerfisins verði frábrugðið framleiðslugetunni. Þegar landsframleiðslan er umfram framleiðslugetuna er talað um að framleiðsluspenna sé til staðar. Þá myndast spenna í þjóðarbúskapnum sem birtist í umframeftirspurn á vöru- og vinnumörkuðum sem veldur að lokum aukinni verðbólgu. Ef framleiðslan er á hinn bóginn minni en sem nemur framleiðslugetu myndast framleiðsluslaki í hagkerfinu sem dregur úr verðbólguþrýstingi að öðru óbreyttu.

Hið opinbera hefur áhrif á gang efnahagsmála eftir tveimur meginleiðum. Annars vegar í gegnum ríkisfjármál og lagasetningu Alþingis og hins vegar hefur ríkisvaldið útvistað því til Seðlabankans að sinna tilteknum þáttum peninga- og fjármála. Seðlabankinn hefur fjölmörg verkefni á sinni könnu, en í lögum um Seðlabanka Íslands er fjallað um þrjú meginverkefni hans. Þau eru að stuðla að stöðugu verðlagi, að tryggja fjármálastöðugleika og stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi.