Af hverju eru reglur um hámarkslán?
Tilgangur þess að setja reglur um það hversu stórt lán hægt er að taka, svo sem vegna húsnæðiskaupa, er m.a. að sporna við óhóflegri skuldsetningu neytenda og treysta viðnámsþrótt bæði lántakenda og lánveitenda, þ.e. bankanna, gagnvart mögulegum viðsnúningi í verði fasteigna. Of mikil skuldsetning getur bæði verið varasöm fyrir einstaka aðila sem og hagkerfið í heild og getur þannig stuðlað að óstöðugleika í fjármálakerfinu.
Þess vegna hafa verið settar reglur um hversu stórt hlutfall lán má vera við húsnæðiskaup. Einnig hafa verið settar reglur um það hve stór hluti af launum eftir skatt má fara í að borga af lánum vegna húsnæðiskaupa. Almenna reglan er sú að veðsett lán vegna húsnæðiskaupa má ekki nema meiru en 80% af markaðsverði fasteignar (85% fyrir fyrstu kaupendur). Þá má greiðslubyrði í hlutfalli við ráðstöfunartekjur eftir skatta ekki nema meiru en 35% (40% fyrir fyrstu kaupendur).
Tilgangur reglnanna er sem sagt að varðveita fjármálastöðugleika.
Hvað eru eiginfjárkröfur á fjármálafyrirtæki?
- Eiginfjárkröfur eru dæmi um reglur sem eiga að stuðla að fjármálastöðugleika.
- Það eru kröfur um að fjármálafyrirtæki eigi fé umfram skuldir; sem sagt krafa um að heildareignir að frádregnum skuldum séu jákvæð tala.
- Eftir því sem eigið fé er stærri hluti efnahagsreiknings eru að jafnaði minni líkur á að fjármálafyrirtæki lendi í greiðsluþroti ef upp koma vandræði.
- Samkvæmt lögum eru gerðar meiri kröfur til banka og annarra fjármálafyrirtækja en fyrirtækja almennt um fjárhæð og skipan eigin fjár.
- Tilgangurinn með lágmarkskröfu um eigið fé banka og annarra fjármálafyrirtækja er að tryggja hagsmuni almennings og stöðugleika fjármálakerfisins í heild.
Hvað eru lausafjárkröfur á fjármálafyrirtæki?
- Markmið með kröfum um laust fé er að draga úr lausafjáráhættu fjármálafyrirtækja með því að stuðla að því að þau eigi ávallt laust fé til að mæta skuldbindingum við álagsaðstæður á tilteknu tímabili.
- Þannig eru gerðar kröfur um að lánastofnanir hafi tiltækar auðseljanlegar og góðar lausafjáreignir, ekki aðeins til að geta staðið skil á skuldbindingum á gjalddaga heldur einnig brugðist við mögulegu útflæði sem verður til dæmis vegna úttekta innlána, minni möguleika á fjármögnun fyrir lánastofnanir eða aukinna krafna um tryggingar eða annað sem krefst fjárútláta lánastofnunar við álagsaðstæður næstu 30 daga.