Meginmál

Seðlabankinn skiptir nánast aðeins við aðra banka

Einstaklingar og fyrirtæki geta ekki keypt eða selt gjaldeyri í Seðlabankanum eða tekið þar út pening. Almenna reglan er sú að fólk fer í viðskiptabanka eða sparisjóð til að útvega sér seðla og mynt eða kaupa eða selja gjaldeyri. Einnig hafa sérstakar gjaldeyrisskiptaþjónustur verið starfandi.

Hvar er hægt að skipta erlendum seðlum?

Viðskiptabankar og sparisjóðir hér á landi hafa að undanförnu keypt og selt erlenda peningaseðla (gjaldeyrisskiptaþjónustur hafa einnig verið starfandi). Þessum aðilum er í sjálfsvald sett hvaða seðla þeir kaupa og/eða selja, en að jafnaði hefur verið hægt að kaupa eða selja seðla frá stærstu gjaldmiðlasvæðum heimsins og helstu nágrannalöndum okkar. Rétt er þó að hafa í huga að viðskiptabankar og sparisjóðir hafa á undanförnum árum dregið úr viðskiptum með erlenda seðla, s.s. ýmsa gjaldmiðla í nágrenni okkar á Norðurlöndum.

Seðlabanki Íslands kaupir hvorki né selur erlenda peningaseðla. Fólk verður því að leita til ofangreindra aðila til að eiga í seðlaviðskiptum.

Hvað með erlenda seðla sem eru úr gildi fallnir eða ekki lengur settir í umferð?

Reglulega eru seðlaraðir í hinum ýmsu löndum endurnýjaðar, ákveðnir seðlar teknir úr umferð og nýir seðlar, t.d. með breyttu útliti, settir í umferð í staðinn, en oft með sama verðgildi. Erlendir seðlabankar sem eru útgefendur seðlanna tilkynna slíkt með góðum fyrirvara og innlendir aðilar sem eiga í viðskiptum með seðlana koma slíkum upplýsingum einnig á framfæri. Eftir sem áður er ekki óalgengt að fólk sé með í höndum erlenda peningaseðla sem eru ekki lengur almennur gjaldmiðill í viðkomandi landi, auk þess sem bankar hér á landi eru hættir að eiga í viðskiptum með slíka seðla. Þá getur verið eina ráðið að skipta slíkum seðlum í banka í viðkomandi landi, í seðlabanka viðkomandi lands eða útibúum þeirra.

Upplýsingar um seðla í gildi í hverju landi má finna á vefsíðum seðlabanka en á vef Alþjóðagreiðslubankans er að finna yfirlit um vefsíður allra eða allflestra seðlabanka, sjá hér: Yfirlit yfir vefsíður seðlabanka.

Tvö þúsund króna seðillinn enn í gildi en á útleið

Það er nokkuð síðan ákveðið var að hætta að setja tvö þúsund króna seðilinn í umferð. Hann er enn í fullu gildi en tiltölulega lítið er af honum í umferð miðað við aðra seðla.

2 þúsund króna seðill