Meginmál

Tímabil verðbólgudraugsins

Verðbólgan olli talsverðum usla á síðari hluta síðustu aldar, það miklum að hún var kennd við draug. Þá hækkaði verð á vöru og þjónustu um tugi prósenta á ári. Talað var um að þá drægi verðbólgudraugurinn úr kaupmætti peninganna og skyti fólki skelk í bringu.

Vextirnir eru meðalið við sjúkdómnum - en hvert er bóluefnið?

Verðbólgan hefur þróast með ýmsu móti undanfarna áratugi en markmiðið frá árinu 2001 er að hún verði sem næst tveimur og hálfu prósenti sem er það verðbólgumarkmið sem Seðlabankinn og ríkisstjórn hafa ákveðið að stefna að. En það er með verðbólguna eins og ýmsar veirur og sjúkdóma: Ef við gætum okkar ekki og förum óvarlega í efnahagsmálum getur verðbólgudraugurinn risið upp og valdið usla. Þá eru vextir besta lyfið til að halda verðhækkunum innan ásættanlegra marka. Við viljum hvorki hafa verðbólguna of mikla, meðal annars út af óvissunni sem það skapar, né viljum við hafa hana of litla - því þá getur of mikið atvinnuleysi fest rætur. En ef vextir eru meðalið við verðbólgunni hvert er þá bóluefnið? Líklega mætti segja að besta bóluefnið gegn verðbólgudraugnum sé það ef við getum komið því við að fólk vænti þess og búist við að verðbólgan verði ásættanleg. Þá hegðar fólk sér líklega fremur í samræmi við það, hvort sem það er sem einstaklingar, hluti af samtökum á vinnumarkaði eða í rekstri fyrirtækja.

Fleiri þurfa að hjálpast að við að kveða drauginn í kútinn

Það er fimm manna peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem nú ákveður vexti Seðlabankans; hún ákveður sem sagt lyfjagjöfina. En það eru fleiri sem geta haft áhrif á sjúkdómsframvinduna, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Stjórnmálamenn hafa með ákvörðunum sínum um tekjur og útgjöld hins opinbera áhrif á heildareftirspurn í samfélaginu og þar með á verðbólguna. Svipað gildir um samtök fyrirtækja og launafólks sem ákveða kaup og kjör, því miklar launahækkanir geta aukið eftirspurn og verðbólgu. Þess vegna er það sameiginlegt verkefni Seðlabankans, stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðar, að kveða verðbólgudrauginn í kútinn.