Meginmál

Seðlar og mynt enn notuð þótt lítið sé

Reiðufé, þ.e. seðlar og mynt, er tiltölulega lítið notað í viðskiptum hér á landi í samanburði við fyrri tíma og í samanburði við mörg önnur lönd. Algengt er að seðlar séu nýttir til gjafa, svo sem við fermingar. Flestir nota rafræna greiðslumiðla eins og greiðslukort til að greiða fyrir kaup á vörum og þjónustu. Hægt er að nota greiðslukort í gegnum smáforrit („app“) sem skráð er í síma eða úr. Mörgum finnst þægilegra og fljótlegra að nota slíka lausn greiða með seðlum og fá kannski greitt til baka, ýmist í seðlum eða mynt.

Er reiðufé alveg óþarft?

Nei, það getur verið gott fyrir heimilin að eiga seðla til að geta keypt nauðsynjavörur eins og mat og lyf, t.d. ef rafmagnsleysi kæmi í veg fyrir að hægt væri að nota greiðslukort.

Hvað er seðlabankarafeyrir?

Á undanförnum árum hefur áhugi á útgáfu seðlabankarafeyris aukist mikið um allan heim. Seðlabankarafeyrir er rafræn útgáfa reiðufjár, seðla og myntar, sem seðlabanki gefur út á gjaldmiðlasvæði sínu. Stjórnvöld, þ.m.t. seðlabankar í Evrópu og víða um heim, setja nú sífellt meiri þunga í rannsóknar- og þróunarstarf um seðlabankarafeyri. Unnið er að fjölmörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum þar sem gerðar eru tilraunir með notkun rafeyris í alþjóðlegri greiðslumiðlun. Seðlabanki Íslands hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort gefa ætti út seðlabankarafeyri en hann fylgist grannt með þróuninni erlendis og mun meta reglulega mögulegan ávinning þess að taka upp seðlabankarafeyri.