Hvað eru vextir?
Vextir eru verð á peningum, þ.e. kostnaður sem greiða þarf fyrir lán eða tekjur sem fást fyrir sparað fé, t.d. á bankareikningi.
Hvað er ávöxtun?
Ávöxtun sýnir hvað tiltekin vaxtakjör jafngilda miklum ársvöxtum ef greitt væri einu sinni á ári.
Hvað eru dráttarvextir?
Dráttarvextir eru vextir sem reiknast á vanskil og eru hugsaðir til að bæta kröfuhafa upp frestun á greiðslu.
Hvað eru stýrivextir?
Stýrivextir eru þeir vextir seðlabanka kallaðir sem hafa áhrif á aðra vexti í hagkerfinu, t.d. á bílalánum eða húsnæðislánum eða vexti á sparnaðarreikningum. Stýrivextir eru líka kallaðir meginvextir seðlabanka.
Hvað eru yfirdráttarvextir?
Yfirdráttarvextir eru vextir af yfirdráttarláni á bankareikningi og eru reiknaðir af fjárhæð sem nýtt er af lánsheimild hverju sinni.
Hvað eru kjörvextir?
Kjörvextir eru lægstu útlánsvextir lánastofnana. Þeir eru notaðir þegar útlánaáhætta er lítil eða óveruleg að mati lánastofnunar.
Hvað eru IKON-vextir?
IKON-vextir (Icelandic Króna Over Night) eru vextir á ótryggðum innlánum hjá upplýsingaskyldum aðilum í viðskiptum í íslenskum krónum til einnar nætur (O/N) sem Seðlabankinn reiknar út og birtir.
Vextirnir eru reiknaður út frá samningum sem fjármálafyrirtækin gera við viðskiptavini sína þegar tekið er við innstæðum á föstum kjörum til einnar nætur, ólíkt REIBOR-vöxtum sem byggjast á tilboðum en ekki á raunverulegum viðskiptum.
Hvað eru REIBOR-vextir?
REIBOR-vextir eru vextir á millibankamarkaði með krónur. Krónumarkaður gengur einnig undir nafninu REIBOR-markaður og vextir sem skráðir eru á markaðnum eru kallaðir REIBOR-vextir. REIBOR er stytting á Reykjavik interbank offered rate.
Hvað eru raunvextir?
Einföld nálgun á raunvöxtum er sú tala sem fæst þegar verðbólga er dregin frá nafnvöxtum, þ.e. nafnvextir mínus verðbólga. Raunvextir eru þannig þeir vextir sem fást að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, þ.e. kaupmáttarbreyting fjár sem ber ákveðna ávöxtun.
Með jöfnu Fishers er sambandið þetta: (1+r) = (1+i) / (1+π)
Hér táknar r raunvexti, i nafnvexti og π stendur fyrir verðbólgu. Raunvextir eru að jafnaði lægri en nafnvextir eða nokkurn veginn sem verðbólgunni nemur.