Þjóðhagsvarúð snýr að því að varðveita stöðugleika í fjármálakerfinu í heild og takmarka hættur sem geta steðjað að því. Þess vegna er t.d. metið hvaða bankar eru mikilvægastir fyrir stöðugleika fjármálakerfisins og sérstaklega er fylgst með þeim.
Seðlabankinn getur beitt tilteknum stjórntækjum til þess að uppfylla markmið um þjóðhagsvarúð. Þessi tæki kallast þjóðhagsvarúðartæki. Þar á meðal eru sérstakar reglur um eiginfjárauka fjármálafyrirtækja, en það eru reglur sem Seðlabankinn setur um það fjármagn sem slík fyrirtæki þurfa að varðveita umfram lágmarkskröfu um eigið fé. Líkja mætti því við reglur um að eiga öryggissjóð. Einnig gilda hér á landi reglur um tiltekinn jöfnuð í eignum í gjaldeyri, um laust fé og fleira.