Eftirlitsskyldir aðilar
Eftirlitsskyldur aðili er fyrirtæki eða stofnun sem hefur fengið útgefið starfsleyfi hjá Seðlabanka Íslands og eftir atvikum öðrum opinberum aðila til þess að stunda starfsemi á fjármálamarkaði eða sem fjármálaeftirlitinu hefur verið falið samkvæmt lögum að hafa eftirlit með. Dæmi um eftirlitsskylda aðila eru:
- Lánastofnanir (viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki)
- Verðbréfafyrirtæki
- Rekstrarfélög verðbréfasjóða
- Rekstraraðilar sérhæfðra sjóða
- Kauphallir og aðrir skipulegir verðbréfamarkaðir
- Verðbréfamiðstöðvar
- Vátryggingafélög
- Vátryggingamiðlarar
- Greiðslustofnanir
- Rafeyrisfyrirtæki
- Innheimtuaðilar
- Gjaldeyrisskiptaþjónusta
- Þjónustuveitendur sýndareigna
Getur hver sem er átt eða stjórnað eftirlitsskyldum aðila?
Í lögum og reglum eru gerðar kröfur til einstaklinga, sem taka sæti í stjórn eða starfa sem framkvæmdastjórar hjá eftirlitsskyldum aðilum, að þeir hafi viðunandi þekkingu og reynslu til að gegna starfinu. Fjármálaeftirlitið leggur mat á það hvort einstaklingar fullnægi hæfnis- og hæfis skilyrðum.
Fjármálaeftirlitið leggur líka mat á það hvort einstaklingar eða fyrirtæki sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í nánar tilteknum eftirlitsskyldum aðilum, s.s. fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum, séu hæfir til þess að fara með slíkan eignarhlut. Virkur eignarhlutur telst vera 10% eða meira af hlutafé, eða eignarhlutur sem tryggir eigandanum yfir 20%, 30% eða 50% atkvæðisrétt. Við mat á virkum eignarhlut er m.a. skoðað hvort eigandi virka eignarhlutarins ætli að breyta starfsemi fjármálafyrirtækisins, hvernig eignarhluturinn er fjármagnaður, hvaða viðskiptatengsl aðilinn hefur við önnur fyrirtæki eða einstaklinga og hvort hann hafi gott orðspor, t.d. hvort hann hafi hlotið refsingu fyrir brot á lögum eða sé til rannsóknar vegna mögulegra brota á lögum.