Meginmál

Fjármálaeftirlit

Markmið fjármálaeftirlits er að stuðla að skilvirkum og öruggum fjármálamarkaði í þeim tilgangi að draga úr líkum á því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila leiði til tjóns fyrir almenning og stuðla að trausti á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlit Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila, s.s. lánastofnana, verðbréfafyrirtækja, vátryggingafélaga og lífeyrissjóða, sé í samræmi við lög og reglur, þar með talið heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti sem miða að því að vernda neytendur og fjárfesta.

Hvað gerir fjármálaeftirlitið?

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með allri fjármálastarfsemi sem stunduð er á Íslandi. Fjármálamarkaðir skiptast í megindráttum í bankamarkað, verðbréfamarkað, vátryggingamarkað og lífeyrismarkað.

Fjármálaeftirlitið setur reglur og tekur þátt í innlendu og erlendu samstarfi sem á að tryggja samræmdar reglur og að eftirliti sé háttað með samræmdum hætti á evrópskum fjármálamarkaði. Þá hefur fjármálaeftirlitið leiðbeiningaskyldu gagnvart almenningi og eftirlitsskyldum aðilum.

Í hverju er fjármálaeftirlit fólgið?

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sinnir mörgum og fjölbreyttum eftirlitsverkefnum meðal annars á bankamarkaði, verðbréfamarkaði, vátryggingamarkaði og lífeyrismarkaði.

Fjármálaeftirlitið beitir áhættumiðuðu eftirliti sem felst í því að meta tiltekna áhættuþætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila sem taldir eru skapa mesta áhættu fyrir viðskiptavini og geta haft mest áhrif á fjármálastöðugleika hverju sinni. Þess vegna er haft meira eftirlit með slíkum aðilum og þeir kallaðir kerfislega mikilvægir aðilar.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitir eftirlitsskyldum aðilum starfsleyfi, að undanskildum lífeyrissjóðum sem fá útgefið starfsleyfi frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, og hefur eftirlit með að starfsemi aðilanna sé í samræmi við skilyrði sem sett eru fyrir starfsleyfinu. Ef grunur er um að lög hafi verið brotin getur fjármálaeftirlitið hafið athugun eða rannsókn á málinu. Þegar brot eru alvarleg og eru refsiverð samkvæmt lögum þá vísar fjármálaeftirlitið málinu til lögreglu. Í þeim tilfellum sem athugun eða rannsókn leiðir í ljós brot á lögum eða reglum sem eru ekki refsiverð, þ.e. varða ekki sektum eða fangelsi, þá hefur Seðlabanki Íslands heimild til þess að taka ákvörðun um að beita eftirlitsskyldan aðila stjórnvaldssekt og krefjast þess að hann geri breytingar í starfsemi sinni sem tryggja að brotið endurtaki sig ekki.