Meginmál

Hvað er gengi gjaldmiðla?

Gengi gjaldmiðla er verð eins gjaldmiðils mælt í öðrum. Til dæmis er gengi evru á móti krónu einfaldlega verðið á einni evru  í íslenskum krónum. Gengi gjaldmiðla ræðst af framboði og eftirspurn í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði. Þegar gengi gjaldmiðils hækkar er sagt að gjaldmiðillinn „styrkist“ en þegar gengið lækkar er sagt að hann „veikist“.

Hvað hefur áhrif á gengi gjaldmiðla?

Ýmsir þættir hafa áhrif á framboð og eftirspurn eftir tilteknum gjaldmiðli, bæði til lengri og skemmri tíma. Mikilvægir áhrifaþættir á gengi gjaldmiðils til lengri tíma eru til að mynda utanríkisviðskipti, viðskiptakjör, hrávöruverð, vaxtamunur við útlönd og verðbólga, en til skemmri tíma getur gengi gjaldmiðils breyst vegna spákaupmennsku og breytinga í áhættuvilja fjárfesta. Margt fleira hefur þó áhrif á gengi gjaldmiðla. Mjög erfitt er að spá fyrir um gengishreyfingar. Margt fleira hefur þó áhrif á gengi gjaldmiðla. Mjög erfitt er að spá fyrir um gengishreyfingar.

Hvað er átt við með fljótandi og föstu gengi?

Breytingar í gengi takmarkast við gengisfyrirkomulag viðkomandi gjaldmiðlasvæðis. Undir fljótandi gengisfyrirkomulagi ræðst gengi gjaldmiðils á gjaldeyrismarkaði. Fastgengi felur á hinn bóginn í sér að seðlabanki viðkomandi gjaldmiðlasvæðis kaupir eða selur erlendan gjaldeyri með virkum hætti til þess að viðhalda ákveðnu gengi.