Meginmál

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er erlendar eignir bankans í erlendum gjaldmiðlum, þ.e. innstæður í erlendum bönkum, skuldabréfaeign, eignir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gull og aðrar erlendar eignir.

Forðinn er til þess að draga úr áhrifum sveiflna í greiðslum á milli Íslands og útlanda, t.d. á gengi krónunnar og þar með á verðlag. Hægt er að nota forðann í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði til að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Enn fremur á forðinn að stuðla að almennum stöðugleika í fjármálakerfi landsins og því að íslenska ríkið geti staðið skil á erlendum skuldum sínum.

Forðinn er jafnframt öryggissjóður sem hægt er að grípa til ef mikil og óvænt áföll eiga sér stað í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Í lok árs 2023 nam andvirði gjaldeyrisforðans um 790 milljörðum króna, um 19% af vergri landsframleiðslu ársins, 29% af peningamagni og sparifé (M3) og samsvaraði innflutningi vöru og þjónustu í 5 mánuði.