Gjaldeyrismarkaður er alþjóðlegur vettvangur þar sem gjaldmiðlar ganga kaupum og sölu. Hlutverk gjaldeyrismarkaða er að auðvelda og stýra miðlun gjaldeyris milli þeirra sem vilja kaupa og selja gjaldeyri. Gengi einstakra gjaldmiðla ræðst í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði.
Á Íslandi eiga gjaldeyrisviðskipti sér stað annars vegar innan fjármálastofnana, einkum stóru viðskiptabankanna, og hins vegar milli stóru bankanna á millibankamarkaði með gjaldeyri. Hver banki stundar gjaldeyrisviðskipti við viðskiptavini sína og miðlar gjaldeyri milli þeirra, en ef þau viðskipti skila afgangi eða skorti á gjaldeyri á banki þess kost að fara á millibankamarkaðinn til þess að kaupa eða selja gjaldeyri, allt eftir því sem þörf er talin á hverju sinni.
Þátttakendur á millibankamarkaði með gjaldeyri gegna hlutverki viðskiptavaka á markaðinum. Viðskiptavakar skuldbinda sig til að halda stöðugt úti leiðbenandi kaup- og sölutilboðum í evru gagnvart íslenskri krónu fyrir tiltekna viðmiðunarfjárhæð. Þetta fyrirkomulag styður við seljanleika í gjaldeyrisviðskiptum og tryggir að verðlagning á krónunni gagnvart erlendum gjaldmiðlum sé virk, sýnileg og samfelld. Millibankamarkaður með gjaldeyri lýtur reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismarkað nr. 600/2020. Seðlabankinn heldur utan um veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri og birtir mánaðarlega á gagnatorgi bankans.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta á Íslandi er að finna í hér: Gjaldeyrismarkaður á Íslandi.