Miðlun peninga; fólk, fyrirtæki, bankar, félög...
Hvað er millibankakerfi Seðlabankans?
Eitt af hlutverkum Seðlabankans er að stuðla að virkri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Til þess að bankinn geti framfylgt þessu hlutverki á hann og rekur mikilvæga fjármálainnviði. Má þar nefna Millibankakerfi, oft kallað MBK, en það kerfi er miðlægt greiðslu- og uppgjörskerfi. Þegar millifæra á fjármuni á milli banka fer greiðslan í gegnum Millibankakefið til uppgjörs og þaðan til þátttakenda. Seðlabankinn og allir bankar og sparisjóðir eru þátttakendur í Millibankakerfinu og tryggir Seðlabankinn uppgjör á milli þeirra. Sem dæmi má nefna að ef seljandi og kaupandi vöru eru ekki með bankareikning í sama banka þá fer færslan í uppgjör í gegnum Millibankakerfið.
MBK skiptist upp í tvo hluta; stórgreiðsluhluta og smágreiðsluhluta. Í stórgreiðsluhlutanum eru gerðar upp greiðslur að fjárhæð 10 m.kr. eða hærri í íslenskum krónum milli tveggja þátttakenda. Einnig eru gerðar endanlega upp greiðslur sem koma frá verðbréfauppgjörskerfum. Í smágreiðsluhlutanum eru gerðar upp greiðslur sem eru lægri en 10 m.kr. í íslenskum krónum milli tveggja þátttakenda. Stór hluti greiðslna sem fer í smágreiðsluhluta MBK eru greiðslukortafærslur og færslur frá netbönkum og bankasmáforritum. Tvisvar á dag sendir smágreiðslukerfið til stórgreiðslukerfisins þá fjárhæð sem á að jafna út milli þátttakenda í Millibankakerfinu.