Einu sinni á dag skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Skráningargengið er augnabliksmynd af stöðu markaðarins á þeim tíma sem það er skráð. Þetta gengi er ekki ætlað til notkunar í viðskiptum, heldur er það birt eingöngu í upplýsingaskyni til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin, sbr. 29. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabankann. Um leið er skráð gengisvísitala Seðlabankans. Birting á gengisskráningu ræðst af því hvaða gjaldmiðlar eru í reiknuðum gjaldmiðlavogum sem liggja til grundvallar útreikningum á vísitölum meðalgengis. Skráning gjaldmiðils hjá Seðlabankanum segir ekkert til um það hvort hægt sé að eiga viðskipti með hann í innlendum viðskiptabönkum.
Gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum er skráð um kl. 14:15 á mið-evrópskum tíma (e. Central European Time) á hverjum degi sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi. Viðmiðunargengið er birt á heimasíðu Seðlabankans um kl. 16:00 á staðartíma hvern viðskiptadag. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.
Nýjasta skráða viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands er að finna á síðunni Opinber gengisskráning. Tímaraðir fyrir gengisskráningu er að finna undir tímaraðir á sömu síðu.