Peningamagn í umferð hefur áhrif á verðbólgu
Peningamagn í umferð eru þeir peningar og lausafjármunir sem til staðar eru í hagkerfinu og hægt er að nota strax eða fljótlega í viðskiptum. Peningamagn er skilgreint frá þröngu peningamagni yfir í vítt eftir því hve laust fjármagnið er til að nýta í viðskiptum. Þrengsta skilgreiningin og minnsta fjármagnið er grunnfé, þ.e. innstæður innlánsstofnana í Seðlabanka Íslands ásamt seðlum og mynt utan Seðlabankans. Í víðari flokkum peningamagns er innlánum bætt við í þrepum eftir því hve laus þau eru til að nýta í viðskiptum og að endingu er verðbréfaútgáfu og hlutdeildarskírteinum peningamarkaðssjóða bætt við til að fá víðustu skilgreininguna. Því meira sem peningamagn er í umferð og því hraðar sem það eykst, þeim mun meiri hætta er á því að fjármunirnir verði notaðir til að auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu og þá er líklegra að verð komi til með að hækka og verðbólga verði meiri fyrir vikið.
Hvað er grunnfé?
Grunnfé Seðlabanka Íslands (e. monetary base, base money) samanstendur af seðlum og mynt í umferð og innstæðum innlánsstofnana í Seðlabankanum.