Skilavald er stjórnvald sem fer með undirbúning og framkvæmd skilameðferðar lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
Seðlabanka Íslands hefur verið fengið þetta vald. Í því felst heimild til að taka ákvarðanir um skilameðferð og beitingu skilaúrræða hjá fjármálafyrirtæki sem er á fallanda fæti, þ.e. ef það getur ekki staðið við skuldbindingar sínar eða að verulegar líkur séu á að það geti ekki staðið við þær.
Markmið skilavalds er að varðveita fjármálastöðugleika, þ.m.t. að tryggja áframhald nauðsynlegrar starfsemi fjármálafyrirtækja og forðast veruleg neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Jafnframt er markmiðið að lágmarka hættu á að veita þurfi sérstakan opinberan fjárstuðning til fjármálafyrirtækja, auk þess að vernda innstæðueigendur, fjárfesta og eignir viðskiptavina fyrirtækjanna.