Meginmál

Verðbréfamarkaðseftirlit er hluti af fjármálaeftirliti Seðlabankans og hefur eftirlit með viðskiptum á verðbréfamarkaði, upplýsingagjöf útgefenda og starfsemi kauphalla, markaðstorga fjármálagerninga, verðbréfamiðstöðvum og öðrum aðilum sem falla undir eftirlitið. Markmið eftirlits með viðskiptum á verðbréfamarkaði er að tryggja eðlilega verðmyndun og að markaðsaðilar fari að lögum og reglum.

Sem dæmi er haft eftirlit með því hvort útgefendur verðbréfa birti upplýsingar opinberlega sem geta haft áhrif á verð hlutabréfa eða skuldabréfa sem eru skráð í kauphöll. Þá vaktar Seðlabankinn verðbréfamarkaðinn og greinir viðskipti í kauphöll. Ef miklar breytingar verða, s.s. óeðlilegt tilboðsflæði eða viðskipti sem leiða til umtalsverðra verðbreytinga á skömmum tíma, þá eru tilboð og viðskipti með einstök verðbréf skoðuð. Í framangreindum aðstæðum er m.a. skoðað hvort aðilar stundi markaðsmisnotkun eða innherjasvik.

Þá hefur Seðlabanki Íslands það hlutverk að staðfesta lýsingar verðbréfa sem birta þarf þegar almennt útboð fer fram eða verðbréf eru tekin til viðskipta á skipulegum markaði. Tilgangur lýsingar verðbréfa er að væntanlegir kaupendur verðbréfanna geti kynnt sér upplýsingar um starfsemi og áhættuþætti fyrirtækisins eða verðbréfsins sem bjóða á í almennu útboði eða taka á til viðskipta í kauphöll. Fjárfestar hafa því allir aðgang að sömu upplýsingum og geta tekið upplýsta ákvörðun um fjárfestingu í verðbréfunum.