Gengisvísitala Seðlabankans sýnir meðalgengi ákveðinna erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu. Hækkun vísitölunnar felur í sér að verð erlendra gjaldmiðla hefur hækkað í krónum talið. Þannig sýnir hækkun vísitölunnar lækkun á gengi krónu en lækkun vísitölunnar hækkun á gengi krónunnar. Vægi einstakra gjaldmiðla er byggt á hlutdeild viðkomandi landa í vöru- og þjónustuviðskiptum og er það endurskoðað árlega til þess að tryggja að samsetningin endurspegli ætíð eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar.
Auk gengisvísitölu reiknar og birtir Seðlabankinn fleiri gengisvísitölur sem byggjast á mismunandi forsendum varðandi vöru- og þjónustuviðskipti Íslands við útlönd.