Meginmál

Það sem allir taka við sem greiðslu

Peningar eru það sem allir taka við sem greiðslu fyrir vöru eða þjónustu, svo sem þegar fólk kaupir sér föt eða mat. Flestir nota reyndar greiðslukort í daglegum viðskiptum en þá eru fjárhæðir (peningar) í viðskiptum teknar út af bankareikningi kaupanda og færðar á reikning söluaðila. Yfir 90% af daglegum viðskiptum eru með greiðslukortum en samt voru um 72 milljarðar króna í reiðufé í umferð í samfélaginu á miðju ári 2024, þ.e. í seðlum og mynt. Greiðslur í heimabanka eru einnig algengar.

Skeljar, gull, silfur o.fl. notað áður

Áður fyrr og í öðrum samfélögum hafa ýmsir greiðslumiðlar verið notaðir, svo sem skeljar, góðmálmar (t.d. gull og silfur), skinn og ýmislegt fleira – auk þess sem vöruskipti hafa farið fram.

Verðmælir, verðmiðill og verðgeymir

Peningar eru jafnan taldir þurfa að uppfylla þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi þurfa þeir að geta mælt verð eða verðmæti (sagt til um hvað hlutir kosta), í öðru lagi að miðla verðmætum (notaðir sem greiðsla) og í þriðja lagi að geyma verðmæti (t.d. sem sparnaður). Ef verðbólga er mikil getur það grafið undan þriðja skilyrðinu.

Traustið ofið í pappírinn eða málminn

Peningarnir sjálfir hafa lítið eða ekkert notagildi, nema kannski fyrir myntsafnara og knattspyrnudómara sem nota mynt til að varpa hlutkesti um það hvort liðið byrjar með boltann og á hvaða hluta vallarins hvort lið byrjar. Peningarnir eru eins konar táknmynd eða ímyndun og notkun þeirra byggist á því að fólk treysti því að hægt sé að kaupa fyrir peningana vörur eða þjónustu fyrir þá fjárhæð sem tölugildi peninganna segir til um.