Meginmál

Fjármálastöðugleikanefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands til að stuðla að og treysta fjármálastöðugleika.

Sem dæmi um slík stjórntæki eru reglur um eiginfjárauka, gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun og reglur sem takmarka áhættu sem lántakendur mega taka, svo sem takmarkanir á veðsetningarhlutföllum og greiðslubyrði fasteignalána í hlutfalli við tekjur.

Í nefndinni sitja seðlabankastjóri, þrír varaseðlabankastjórar og þrír utanaðkomandi sérfræðingar. Auk þess á ráðuneytisstjóri eða tilnefndur embættismaður ráðuneytis er fer með málefni fjármálastöðugleika sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.