Meginmál

Hærri vextir Seðlabankans leiða almennt til aukins sparnaðar, minni lántöku, minni neyslu og fjárfestingar og þar með til minni eftirspurnar eftir vöru og þjónustu sem ætti að leiða til minni verðbólgu en ella.

Meginvextir (stundum kallaðir stýrivextir) eru þeir vextir seðlabanka sem helst hafa áhrif á vexti lánastofnana og þar með á aðra vexti í samfélaginu og á endanum á eftirspurn og framboð og verð í hagkerfinu – og þar með á verðbólgu og kaupmátt þeirra peninga sem hver og einn á.

Seðlabankinn breytir sem sagt vöxtum til að hafa áhrif á verðbólgu. Ef verðbólgan er of mikil hækkar Seðlabankinn að jafnaði vextina m.a. til að hvetja til aukins sparnaðar og draga úr útlánum, eftirspurn og þar með úr verðhækkunum. Ef útlit er fyrir að verðbólgan verði of lítil lækkar bankinn vextina. Markmiðið er að verðbólgan verði sem næst 2½% á ársgrundvelli.