Meginmál

Meginvextir (stundum kallaðir stýrivextir) Seðlabankans eru þeir vextir í viðskiptum við lánastofnanir sem ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Meginvextir bankans um þessar mundir eru vextir á sjö daga bundnum innlánum innlánsstofnana í Seðlabankanum.

Seðlabankinn framkvæmir peningastefnuna einkum með því að stýra vöxtum á peningamarkaði, fyrst og fremst í gegnum ákvörðun vaxta í viðskiptum sínum við lánastofnanir, sem síðan hefur áhrif á aðra markaðsvexti og þar með á peningamagn í umferð, eftirspurn og verðbólgu. Tilgangur með hækkun slíkra vaxta getur verið að hvetja til aukins sparnaðar, draga úr útlánum, hægja á eftirspurn eftir vörum og þjónustu og að lokum draga úr verðbólgu.

Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvaða vextir Seðlabankans hafa mest áhrif á aðra skammtímavexti og teljast þar með meginvextir hans. Fyrir fjármálaáfallið haustið 2008 voru meginvextir bankans almennt taldir vera vextir á lánum Seðlabankans gegn veði til lánastofnana, þ.e. svokölluð veðlán, enda var eftirspurn eftir þeim talsverð. Eftir fjármálaáfallið hefur eftirspurn lánastofnana eftir útlánum í Seðlabankanum hins vegar verið takmörkuð og lánastofnanir átt þeim mun meira af innlánum á reikningum sínum í bankanum. Því hafa vextir á innlánsformum bankans verið áhrifameiri um vaxtaþróun á peningamarkaði frá árinu 2009.

Peningastefnunefnd ákveður meginvexti Seðlabanka Íslands og önnur stjórntæki bankans í peningamálum, svo sem viðskipti við lánastofnanir önnur en þrautavaralán, bindiskyldu og þau viðskipti á gjaldeyrismarkaði og með verðbréf sem hafa það að markmiði að stöðugu verðlagi og verðbólgumarkmiði sé náð. Í peningastefnunefnd sitja seðlabankastjóri, tveir varaseðlabankastjórar og tveir utanaðkomandi sérfræðingar.

Stýrivextir Seðlabankans