Eftirspurnin ræður seðlaprentuninni
Seðlabankinn þarf að anna þeirri eftirspurn sem er eftir seðlum og mynt í samfélaginu.
Einstaklingar og fyrirtæki sækja reiðufé til viðskiptabanka eða sparisjóða, t.d. í hraðbanka þeirra, en bankar og sparisjóðir sækja síðan reiðuféð til Seðlabankans.
Seðlabankinn lætur prenta seðla og slá mynt með reglulegu millibili eftir því sem hann telur þörf á miðað við eftirspurn. Seðlar verða oft ónýtir eftir nokkurra ára notkun og því er milljónum seðla eytt á ári hverju og nýir seðlar settir í notkun í staðinn.
Hvernig og hvar eru seðlar framleiddir í dag?
Seðlabankinn metur út frá eftirspurn eftir seðlum hvenær þarf að prenta nýja seðla.
Seðlabankinn lætur prenta seðla og slá mynt hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í slíkri framleiðslu. Í tæpa öld hafa þessi fyrirtæki verið staðsett í Bretlandi.
Af hverju bættum við tíu þúsund króna seðli við?
Tilgangur með útgáfu seðilsins var að gera greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari, meðal annars með því að fækka seðlum í umferð.
Þegar tíu þúsund króna seðli var bætt við seðlaröð Seðlabankans árið 2013 hafði verðbólga síðustu áratuga m.a. leitt til þess að hlutur fimm þúsund króna seðilsins, sem var hæsta verðgildið þá, var kominn yfir 80% af heildarvirði útgefinna seðla.
Þannig kallar stöðugt hækkandi verð, þ.e. verðbólga til langs tíma, á seðla eða mynt með hærra verðgildi.