Meginmál

Millifærslur eftir ýmsum leiðum

Bankar og sparisjóðir bjóða viðskiptavinum upp á ýmsar greiðsluleiðir svo þeir geti haft aðgang að fjármunum sem þeir eiga á bankareikningi sínum. Helstu leiðirnar eru útgáfa greiðslukorta og aðgangur að netbanka og bankasmáforriti í snjalltæki.

Hér á landi hefur rauntímagreiðslumiðlun verið við lýði í fjölda ára. Með raungreiðslu er átt við að greiðsla berist móttakanda um leið og millfærsla er framkvæmd. Víða erlendis tók millifærsla milli tveggja fjármálafyrirtækja 1-2 daga, en nú eru flest lönd í Evrópu að innleiða rauntímagreiðslumiðlun.

Hvernig virka debetkort?

Þegar fólk borgar með debetkorti er það að eyða peningum sem það á. Þá er fjárhæðin sem keypt er fyrir tekin beint út af reikningi kaupandans, hvort sem hann notar plastað debetkort eða debetkort sem er tengt við síma eða úr.

En kreditkortin - hvernig virka þau?

Þegar fólk borgar með kreditkorti er það í raun að taka lán hjá banka sínum. Skuldin er svo greidd að jafnaði upp um næstu mánaðamót. Söluaðilinn fær hins vegar yfirleitt greiðsluna eftir 1-2 daga eða seinna ef samið er um það.