Seðlabankar eru sjálfstæðir meðal annars til þess að þeir geti einbeitt sér betur að markmiðum sínum án afskipta annarra og til lengri tíma en oft gildir t.d. um kjörtímabil stjórnmálamanna. Þannig er meðal annars talið að hægt sé að stuðla að meiri stöðugleika í efnahagslífinu.
Ríkisvaldið hefur víða ákveðið með lögum að tilteknar stofnanir sjái um ákveðin og afmörkuð verkefni og hafi jafnframt sjálfstæði til að sinna þeim.
Þetta þykir heppilegra fyrirkomulag en að t.d. stjórnmálamenn taki ákvarðanir fyrir þessar stofnanir eins og sums staðar hefur verið áður. Eitt skýrasta dæmi um sjálfstæðar stofnanir af þessu tagi eru dómstólar.
Í tilfelli seðlabanka hefur þótt óheppilegt að stjórnmálamenn taki t.d. ákvarðanir um vexti. Þeir gætu freistast til að hafa vexti sem lægsta fyrir kosningar en hækka þá eftir kosningar til að bregðast við verðbólgu. Það gæti stuðlað að meiri verðbólgu og óstöðugleika til lengdar. Því eru seðlabankastjórar, ýmsir aðrir embættismenn og það fólk sem tekur ýmsar veigamiklar ákvarðanir oft skipað til lengri tíma en nemur kjörtímabili stjórnmálamanna. Þetta fyrirkomulag er meðal annars talið stuðla að meiri stöðugleika í efnahagslífinu og jafnvel samfélaginu almennt.